Nýjar Evrópureglur um stafrænar eignir á bálkakeðjum (e. MiCA) sem taka munu gildi um þarnæstu áramót samræmast einstaklega vel túlkun og aðferðafræði fjártæknifyrirtækisins Monerium, sem er því komið í yfirburðastöðu á sínum markaði að sögn Sveins Valfells, framkvæmdastjóra og eins af stofnendum félagsins.

Félagið gefur út hefðbundinn lögeyri á borð við krónur, evrur og dali út á bálkakeðjur í formi rafeyris, sem undirbyggja útgáfu rafmynta, og varð árið 2019 það fyrsta í Evrópu til að hljóta til þess leyfi yfirvalda. Monerium hefur einnig þróað gátt sem býður upp á beina færslu evra milli bankareikninga annars vegar og veskja á bálkakeðjum hins vegar.

Rafmyntir utan lagarammans vestanhafs

„Í dag getum við því sent peninga beint frá evrópskum bankareikningum yfir á bálkakeðjur og til baka, sem er fyrsta þjónusta sinnar tegundar í heiminum. Nú er rafmyntaheimurinn að vakna upp við það að margt af því sem þar hefur gerst er í raun og veru utan ramma laga og reglna.

Þegar stofnandi og framkvæmdastjóri Binance – stærstu rafmyntakauphallar í heimi – lætur hafa eftir sér nýlega að hið nýja evrópska regluverk gæti orðið fyrirmynd fyrir allan heiminn þá eru það eðlilega mjög góð tíðindi fyrir Monerium sem er eina fyrirtækið með rétta leyfið í Evrópu til að gefa út peninga á bálkakeðjur.

Það mun taka tíma fyrir keppinauta okkar að afla sér tilskilinna leyfa og á meðan erum við einir á markaðnum og með forskot ekki bara hvað leyfið varðar, heldur líka evru-gáttina og undirliggjandi tækni sem við höfum verið að þróa síðustu ár.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.