Einar Þorsteinsson borgarstjóri bað Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, afsökunar á ummælum sem hann lét falla í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark í haust um að það sé galið að markaðsaðilar telji meiri áhættu fólgna í því að lána borginni „heldur en Icelandair sem default-ar [í. verður greiðsluþrota] á tíu ára fresti“.

Bogi greinir frá þessu í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark, þar sem hann var spurður út í ummæli borgarstjóra.

„Ég held að hann sjái nú eftir þessum orðum sínum. Hann bað mig allaveganna afsökunar í símtali enda er þetta náttúrulega bara kolrangt hjá honum,“ sagði Bogi, spurður um ummæli Einars.

„Icelandair hefur ekki [orðið greiðsluþrota (e. default)] og hefur alltaf borgað alla sína reikninga í 87 ára sögu félagsins, sem er nú meira en mörg flugfélög geta sagt. Icelandair er mjög stolt af því og stolt af þessari löngu og sterku sögu. Þannig að það sem Einar sagði er bara kolrangt.“

Rangt að Icelandair hafi verið ríkisstyrkt í gegnum tíðina

Annar þáttastjórnendanna nefndi í kjölfarið að Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, hefði talað með sambærilegum hætti um Icelandair í sama hlaðvarpi síðasta sumar. Einar Örn sagði í þeim þætti að Icelandair fengi ákveðið ósanngjarnt samkeppnisforskot yfir Play frá ríkinu út frá notkun þingmanna og annarra starfsmanna ríkisins á vildarpunktum í eigin þágu, sem fengnir eru vegna ferðalaga sem ríkið greiðir.

„Ég veit bara ekki hvað er verið að tala um þegar það er verið að tala um að Icelandair sé búið að vera að fá ríkisstyrki og þess háttar,“ sagði Bogi, spurður um umræðu um að Icelandair hafi notið góðs af stuðningi ríkisins í gegnum tíðina.

Hvað varðar Covid-faraldurinn, þá sagði Bogi að Icelandair hafi ekki tekið við beinum fjármunum í formi sértækra aðgerða. Icelandair hafi hins vegar fengið ríkisábyrgð á lánlínu, sem félagið nýtti sér ekki, auk þess að hafa tekið þátt í almennum stuðningsaðgerðum stjórnvalda í faraldrinum líkt og langflest fyrirtæki landsins.

Bogi sagði að í mörgum löndum í kringum okkur hafi stjórnvöld sett verulega fjármuni inn í flugfélög í sértækum aðgerðum, t.d. í formi lána, eiginfjár eða styrkja líkt og í Bandaríkjunum. Hann sagði þá leið sem íslensk stjórnvöld fóru hafa verið mjög skynsama.

„Svo er alltaf verið að vísa í það, eða margir aðilar að tala um það, að Icelandair og Flugleiðir hafi verið ríkisstyrktir í gegnum tíðina. Það er bara rangt.“

Bogi ræðir um ummæli borgarstjóra og umræðu um ríkisstuðning frá 1:12:45-1:15:15.