Einar Þorsteinsson borgarstjóri segist ósáttur við markaðskjörin á skuldabréfum Reykjavíkurborgar. Hann telur þau vera í engu samræmi við þá áhættu sem felst í að lána borginni.

„Reykjavíkurborg hefur aldrei farið á hausinn. Við eigum Orkuveituna sem er með 65% eiginfjárhlutfall. Þetta eru þúsund milljarðar. Við erum bara með tekjustrauma sem eru útsvar og fasteignagjöld. Við getum alltaf borgað af okkar skuldum,“ segir Einar í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

„Það er galið að borgin sé með meira álag, að það sé talið af hálfu markaðsaðila vera meiri áhætta að lána Reykjavíkurborg heldur en Icelandair sem [verður greiðsluþrota (e. defaults)] á tíu ára fresti. Og að Orkuveitan sem við eigum og erum lánveitandi til þrautavara, sé með betri kjör en við.“

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segist ósáttur við markaðskjörin á skuldabréfum Reykjavíkurborgar. Hann telur þau vera í engu samræmi við þá áhættu sem felst í að lána borginni.

„Reykjavíkurborg hefur aldrei farið á hausinn. Við eigum Orkuveituna sem er með 65% eiginfjárhlutfall. Þetta eru þúsund milljarðar. Við erum bara með tekjustrauma sem eru útsvar og fasteignagjöld. Við getum alltaf borgað af okkar skuldum,“ segir Einar í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

„Það er galið að borgin sé með meira álag, að það sé talið af hálfu markaðsaðila vera meiri áhætta að lána Reykjavíkurborg heldur en Icelandair sem [verður greiðsluþrota (e. defaults)] á tíu ára fresti. Og að Orkuveitan sem við eigum og erum lánveitandi til þrautavara, sé með betri kjör en við.“

Skilaboð með láni frá Þróunarbankanum

Reykjavíkurborg gekk í sumar frá lán að fjárhæð 100 milljónir evra, eða tæplega 15 milljarðar króna, frá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Einar segir að kjörin á þessi láni séu betri en borginni hefur boðist á íslenska skuldabréfamarkaðnum.

Eins hafi borgin viljað koma þeim skilaboðum til skuldabréfamarkaðarins „heyrðu við þurfum ekki alveg svona á mikið á ykkur að halda, við bara þynnum okkar hlut“.

Borgin felldi niður útboð í maí, júní og ágúst sem Einar rekur bæði til þess að borgin hafi verið ágætlega fjármögnuð en einnig sé þátttaka almennt lág á sumrin.

Borgin hafi síðan gefið út verðtryggð skuldabréf í nýjum flokki, RVK 44 1, fyrir 4,1 milljarð króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 3,90% þann 18. september síðastliðinn. Einar segir að álagið á ríkisskuldabréf hafi lækkað talsvert við það.

„Ég lít svo á að við séum á hárréttri leið […] Ég finn að skipið er að snúast af því að fólk hefur séð hvernig við erum að taka á fjármálunum.“

Voru á tímabili að fjármagna reksturinn með skuldum

Einar fór fyrr í þættinum yfir aðhaldsaðgerðir borgarinnar á undanförnum tveimur árum og ráðstafanir til að koma starfsmannamálum í betra horf.

Hann segist hafa verið „mjög leiðinlegur“ uppi í ráðhúsi varðandi þá áherslu sína að ná betur tökum á rekstri og fjármálum borgarinnar. Hann segir m.a. að borgin sé að „kollvarpa“ því hvernig fjármálaáætlanir séu unnar.

„Ég finn það að markaðurinn er að fá meiri trú á því að við séum að ná árangri. Hallinn lækkar. Skuldaviðmiðin í A-hlutanum eru á fínum stað. Veltufé frá rekstri er á frábærum stað núna – það var neikvætt í upphafi kjörtímabils þegar við í raun og veru áttum ekkert eftir þegar við vorum búin að borga lán og laun og vorum að fjármagna reksturinn á lánum.“

Einar, sem hefur sjálfur haldið kynningar fyrir markaðsaðila við birtingu uppgjöra, telur að borgin sé að koma þeim skilaboðum áleiðis til markaðarins að hún sé að taka fastari tökum á rekstrinum og fjármálum sínum.

„Ég vonast til þess að fá fáum betri kjör í næstu útboðum og stóla á það.“