Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, hefur í dag tekið að sér að auki stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs félagsins. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Play en þar segir að ráðstöfunin sé tímabundin þangað til nýr fjármálastjóri hefur verið ráðinn.
Ólafur Þór Jóhannesson, var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play en hann lét af störfum hjá flugfélaginu að eigin ósk í lok apríl.
Ólafur tók við stöðunni í byrjun nóvember 2022 af Þóru Eggertsdóttur. Hann hafði áður starfað hjá Skel fjárfestingarfélagi og forvera þess frá árinu 2019, síðast sem forstjóri.
Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 62% á árinu og stendur gengið í 2,94 krónum þegar þetta er skrifað.