Einar Þor­steins­son borgar­stjóri hefur slitið meiri­hluta­sam­starfinu í borgar­stjórn Reykja­víkur.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag hafa verið óform­legar viðræður milli stjórnar­flokkanna síðustu daga um myndun nýs meiri­hluta.

Tölu­vert hefur borið á ágreiningi meðal stjórnar­flokkanna en ákvörðun Einars og annarra borgar­full­trúa Framsóknar að styðja til­lögu Sjálf­stæðis­flokksins varðandi áfram­haldandi veru flug­vallarins í Vatns­mýri vakti mikla at­hygli.

„Ég hef tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutasamstarfinu. Við teljum að við höfum ekki náð þeim árangri fyrir Reykvíkinga sem við lofuðum þeim. Við lofuðum þeim breytingum og í þessu samstarfi tekst okkur ekki að knýja fram breytingar sem við teljum nauðsynlegar,“ sagði Einar í samtali við RÚVí kvöld.

„Við þurfum að taka stærri ákvarðanir í húsnæðismálum. Við þurfum líka að tryggja rekstraröryggi flugvallarins. Það eru líka leiðir í leikskólamálum sem ég hef viljað knýja fram og daggæslumálum. Svo er það sem kannski mestu máli skiptir rekstur borgarinnar. Ég hef viljað ganga lengra í hagræðingu en við höfum náð saman um. Þetta er niðurstaðan,“ sagði Einar.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins hafa Sjálf­stæðis­flokkurinn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins verið í óform­legum samtölum og eru þeir flokkar taldir lík­legir til að mynda meiri­hluta, ákveði Einar Þor­steins­son borgar­stjóri að slíta sam­starfinu.

Borgar­full­trúar í Reykja­vík hafa verið 23 talsins frá því í kosningunum 2018, þar áður sátu 15 borgar­full­trúar í borgar­stjórn. Það þarf því 12 borgar­full­trúa til að mynda meiri­hluta.

Það er því einnig hægt að mynda fimm flokka vinstri meiri­hluta með full­trúum Sam­fylkingarinnar, Vinstri grænna, Sósíalista­flokksins, Flokki fólksins og Pírata.

Hægt er að lesa meira um borgar­málin hér.