Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur slitið meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn Reykjavíkur.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hafa verið óformlegar viðræður milli stjórnarflokkanna síðustu daga um myndun nýs meirihluta.
Töluvert hefur borið á ágreiningi meðal stjórnarflokkanna en ákvörðun Einars og annarra borgarfulltrúa Framsóknar að styðja tillögu Sjálfstæðisflokksins varðandi áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri vakti mikla athygli.
„Ég hef tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutasamstarfinu. Við teljum að við höfum ekki náð þeim árangri fyrir Reykvíkinga sem við lofuðum þeim. Við lofuðum þeim breytingum og í þessu samstarfi tekst okkur ekki að knýja fram breytingar sem við teljum nauðsynlegar,“ sagði Einar í samtali við RÚVí kvöld.
„Við þurfum að taka stærri ákvarðanir í húsnæðismálum. Við þurfum líka að tryggja rekstraröryggi flugvallarins. Það eru líka leiðir í leikskólamálum sem ég hef viljað knýja fram og daggæslumálum. Svo er það sem kannski mestu máli skiptir rekstur borgarinnar. Ég hef viljað ganga lengra í hagræðingu en við höfum náð saman um. Þetta er niðurstaðan,“ sagði Einar.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins verið í óformlegum samtölum og eru þeir flokkar taldir líklegir til að mynda meirihluta, ákveði Einar Þorsteinsson borgarstjóri að slíta samstarfinu.
Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa verið 23 talsins frá því í kosningunum 2018, þar áður sátu 15 borgarfulltrúar í borgarstjórn. Það þarf því 12 borgarfulltrúa til að mynda meirihluta.
Það er því einnig hægt að mynda fimm flokka vinstri meirihluta með fulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Sósíalistaflokksins, Flokki fólksins og Pírata.
Hægt er að lesa meira um borgarmálin hér.