Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir umræðuna um hverjir kaupa íbúðir og hverjir ekki byggjast á misskilningi en eftir aðsenda grein framkvæmdastjóra Aflvaka í Innherja um að íbúðaskortur hafi gert húsnæði að fjárfestingavöru hefur staða fjárfesta á húsnæðismarkaði verið milli tannanna á fólki.
Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, bendir á í grein sinni að á allra síðustu árum hafi hlutfall fólks sem kaupir fasteign til eigin nota farið hríðlækkandi.
Segir Sigurður að tæplega 90 prósent þeirra sem hafa keypt íbúðir sem bættust við markaðinn á fyrstu sex mánuðum þessa árs séu fjárfestar af ýmsum toga.
Konráð bendir á að hér þurfi að hafa í huga hlutfall kaupa fjárfesta í íbúðum alls sem hlutfall af nýjum íbúðum sem koma á markaðinn.
Grein Sigurðar fjallar um viðbótaríbúðirnar en ekki hlutfall af markaðinum í heild líkt og hefur verið í umræðunni.
„Dálítið skrítin umræða sem fór skyndilega af stað um hverjir kaupa íbúðir og hverjir ekki, sem virðist byggja á einhverjum misskilningi um að 90% af íbúðum séu keyptar af óskilgreindum fjárfestum. Ef það er túlkunin er það einfaldlega rangt,” skrifar Konráð á samfélagsmiðilinn X.
„Dálítið skrítin umræða sem fór skyndilega af stað um hverjir kaupa íbúðir og hverjir ekki, sem virðist byggja á einhverjum misskilningi um að 90% af íbúðum séu keyptar af óskilgreindum fjárfestum. Ef það er túlkunin er það einfaldlega rangt,” skrifar Konráð á samfélagsmiðilinn X.
En hann birtir mynd máli sínu til stuðnings.

„Sú ályktun virðist byggja á horfa á hlutfall kaupa fjárfesta í íbúðum alls sem hlutfall af nýjum íbúðum sem koma á markaðinn. Eins og myndin sýnir er yfirgnæfandi meirihluti veltu ekki nýbyggingar. Gömlu og góðu eplin og appelsínurnar,“ skrifar Konráð.
Grindvíkingar lækka hlutfall fyrstu kaupenda
Konráð segir að það megi auðveldlega sjá að ályktunin gengur ekki upp þegar hlutfall fyrstu kaupenda er tiltölulega stöðugt á bilinu 20-35%. „Þá áttu eftir að taka saman alla hina einstaklingana sem eru að selja og kaupa nýja,“ skrifar Konráð.
Hann bætir við að lokum að það verði að teljast líklegt að óvenju lágt hlutfall fyrstu kaupenda á árinu hingað til skýri a.m.k. að stóru af almennt aukinni veltu sem aftur skýrist af Grindvíkingum að finna sér nýtt heimili.
