Íslandsbanki og Arion banki hafa ekki sagt frá einstökum hækkunum fastra húsnæðislánavaxta í frétt á vef sínum eða með annars konar opinberri tilkynningu það sem af er ári.
Landsbankinn hefur aftur á móti tilkynnt allar vaxtabreytingar sem blaðamaður kannaði, frá ársbyrjun í fyrra. Allir greina þeir þó frá hækkun fastra vaxta þegar hún á sér stað samhliða hækkun breytilegra.
Vilja forðast misskilning hjá viðskiptavinum
Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir bankann ætíð birta upplýsingar um vaxtabreytingar og upplýsa viðskiptavini eins og lög kveði á um.
„Jafnframt upplýsum við upplýsingaveitur eins og Aurbjörgu sem birtir vexti allra helstu lánveitenda. Það sem hefur verið aðeins breytilegt er hvort við setjum jafnframt frétt á vefinn okkar.“
Almenna reglan það varðar sé sú að birtar séu fréttir um vaxtabreytingar, en ákvörðun hafi verið tekin um að birta ekki sérstaka frétt þegar aðeins fastir vextir hafi verið hækkaðir nýlega.
„Vaxtahækkanir leiða þessa dagana alltaf til fjölmiðlaumfjöllunar, eins og eðlilegt er. Tilfinningin sem margir fá við að heyra fréttir af vaxtahækkunum er að vextir á þeirra íbúðalánum hljóti að vera að hækka og fáum við fjölda fyrirspurna frá áhyggjufullum viðskiptavinum. Þegar við erum aðeins að breyta vöxtum á lánum með fasta vexti þá snertir það aðeins ný lán en ekki lán sem þegar hafa verið veitt. Þannig snúa þær hækkanir ekki að núverandi viðskiptavinum heldur aðeins þeim sem eru í lántökuhugleiðingum og kynna sér vel þá kosti sem í boði eru áður en þeir taka ákvörðun. Í því ljósi og einnig með það í huga að aðrir bankar viðhöfðu þetta verklag þá töldum við það rétt að standa svona að málum í þessi skipti, þ.e.a.s. að birta ekki sérstaka frétt á vefnum okkar,“ segir Haraldur Guðni.
Bankinn hefur í tvígang hækkað fasta vexti á árinu án tilkynningar, en athygli vekur að í febrúar á síðasta ári var sérstök frétt birt á vef hans um að fastir óverðtryggðir vextir bankans hefðu verið lækkaðir.
Fréttinn er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.