Varaformaður stjórnar Íslandsbanka, Stefán Pétursson, tilkynnti í dag til Kauphallarinnar að einkabankaþjónusta eiginkonu hans hafi fyrir hönd hennar tekið þátt í almennu hlutafjárútboði Íslandsbanka í maí fyrir 3 milljónir króna.

„Eiginkona mín, Ingunn Guðrún Árnadóttir, er með fjármuni í einkabankaþjónustu hjá Arion banka. Henni var nýverið tjáð að einkabankinn, sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir um fjárfestingar í sjóðum, hlutabréfum og skuldabréfum, hefði fyrir hennar hönd tekið þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta eru að sjálfsögðu leið mistök sem hefðu ekki átt sér stað ef ég eða konan mín hefðum verðið spurð fyrirfram um fjárfestinguna.“

Hið 90 milljarða króna útboð á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka stóð yfir 13. - 15. maí sl. Alls tóku um 31 þúsund manns þátt í útboðinu.

Svo virðist sem að lögð hafi verið sú lína innan bankans að stjórnarmenn og stjórnendur Íslandsbanka skyldu ekki taka þátt í útboðinu, en fram til dagsins í dag hafði ekki verið tilkynnt um nein viðskipti stjórnenda í útboðinu.

Stéfan var kjörinn í stjórn Íslandsbanka á hluthafafundi bankans í júlí 2023 og tók í kjölfarið við varaformennsku í stjórninni. Stefán starfar í dag sem fjármálastjóri íslenska lyfjaþróunarfyrirtækisins EpiEndo en hann hafði áður starfað sem fjármálastjóri Arion banka í meira en áratug.