Fyrirtækið Núllarinn leit dagsins ljós fyrir áramót en félagið sérhæfir sig í innflutningi, dreifingu og sölu á óáfengum drykkjum. Þar að auki flytur það inn umhverfisvæn pastarör og aðrar tengdar vörur.
Mennirnir á bakvið Núllarann eru þeir Indriði Þröstur Gunnlaugsson og Guðjón Þór Guðmundsson, sem áður rak veitingastaðinn Bazaar hjá Icelandair.
Indriði segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann og Guðjón hafi lengi þekkst og að Guðjón sé oft mjög duglegur að koma til hans með nýjar hugmyndir. Indriði hafi þó ekki alltaf tekið vel í þær allar en var mjög fljótur að segja já við þessari hugmynd.
„Ég hef verið að skynja töluverða breytingu í þjóðfélaginu og ég er sjálfur eiginlega hættur að drekka og margir vinir mínir eru það líka. Þannig ég sagði já við þessari hugmynd. Guðjón fór svo og fann þessa öflugu birgja á Spáni og svo erum við líka búnir að vera í samstarfi við fyrirtækið Monday í Bandaríkjunum,“ segir Indriði.
Núllarinn flytur inn og dreifir víntegundum frá spænska fyrirtækinu Lussory. Það fyrirtæki sérhæfir sig í framleiðslu á áfengislausu víni sem viðheldur þó öllum gæðum og bragði sem vínunnendur elska. Lussory-vínin eru þá rík af andoxunarefnum og innihalda lítinn sykur.
Í Lussory-vínunum er áfengið fjarlægt með sérstakri aðferð sem kallast vakuumeimingu (e. vacuum distillation), en sú aðferð tryggir að bragð, ilmur og önnur mikilvæg efnasambönd vínsins haldist óskert meðan vínandinn sjálfur er fjarlægður.
„Það sem við erum að gera er að við erum að opna meðvitund um það fólk sem drekkur ekki“
„Það sem er að gerast í Bandaríkjunum, Bretlandi og alls staðar annars staðar er að þetta er einn mest stækkandi markaður í heiminum. Þetta er að aukast um 30-35% í Bandaríkjunum og það er ekki bara bjórinn, heldur léttvín og sterkt vín líka,“ segir Guðjón.
Núllarinn hefur einnig þróað eigin óáfenga bjór í samstarfi við Kalda Bruggsmiðju á Norðurlandi. Bjórinn er þá framleiddur úr vönduðu hráefni með hefðbundnum aðferðum, en er fullkomlega laus við áfengi.
Eftirspurnin hefur strax látið sjá sig en þeir segjast þekkja til einstaklinga sem reka bæði hótel og laxveiðiár sem taki gjarnan á móti hópum þar sem allir eru edrú. Indriði og Guðjón segja þá að vefverslun þeirra verði að öllum líkindum komin í loftið eftir helgi.
„Það sem við erum líka að gera er að við erum að opna meðvitund um það fólk sem drekkur ekki og nú getur það fengið alvöru vín sem það getur drukkið eins og allir aðrir. Það er líka betra fyrir fyrirtæki að geta boðið upp á eitthvað meira en bara sódavatn og óáfengan bjór.“