Fjárfestingarfélagið Kjálkanes, systurfélag útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík, seldi 500 þúsund hluti í Festi í síðasta mánuði, samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa smásölufyrirtækisins. Salan fylgir í kjölfar meira en 40% hækkunar á hlutabréfaverði Festi í fyrra.

Miðað við meðalgengi hlutabréfa Festi í desember má ætla að söluverð Kjálkaness hafi verið í kringum 140 milljónir króna. Eignarhlutur fjárfestingarfélagsins fór úr 1,31% í 1,15% við söluna. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Kjálkaness nemur ríflega einum milljarði króna.

Kjálkanes er einn stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Festi en smásölufyrirtækið er að langstærstum hluta í eigu lífeyrissjóða.

Í því samhengi má nefna að Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, sem voru þá stærstu einkafjárfestarnir í hlutahópnum, seldu sig út úr Festi fyrir samtals um 2,6 milljarða króna í júlí síðastliðnum, skömmu í kjölfar þess að tveir af stærstu hluthaföfum Festi, LSR og Brú lífeyrissjóður, lögðust gegn tilnefningu Þórðar Más í stjórn smásölufyrirtækisins.

Á aðalfundi Festi síðasta vor dró Þórður Már framboð sitt til stjórnar baka og gagnrýndi um leið vinnubrögð ofangreindra lífeyrissjóða. Björgólfur Jóhannsson, einn af eigendum Kjálkaness, dró sömuleiðis framboð sitt í endurskoðunarnefnd til baka á aðalfundinum.

Sala Kjálkanes í Festi í síðasta mánuði er fyrsta breytingin á eignarhluti fjárfestingarfélagsins í Festi frá umræddrum aðalfundi eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst.

Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Sýnar, var meðal hóps fjárfesta sem stóð að kaupum á hlutum Þórðar Más og Hreggviðs, m.a. í gegnum framvirka samninga, líkt og Innherji greindi frá á sínum tíma. Áætlað var að Heiðar væri kominn með yfir eitt prósents hlut í Festi.

Meðal annarra stórra einkafjárfesta í hluthafahópi Festi eru Daníel Helgason og Ingi Guðjónsson sem fengu samtals tæplega eins prósents hlut í Festi sem endurgjald í sölunni á Lyfju til Festi. Þeir áttu 15% hlut hvor í Lyfju fyrir söluna í gegnum félögin Kask og Þarabakka.

Stærstu hluthafar Festi í árslok 2024

Hluthafi Fjöldi hluta Eignarhlutur
LSR (A- og B-deild) 40.102.683 14,25%
LIVE 38.574.083 12,38%
Brú (sveit og R deild) 36.983.033 11,87%
Gildi - lífeyrissjóður 28.425.325 9,13%
Stapi lífeyrissjóður 17.272.249 5,54%
Almenni lífeyrissjóðurinn 14.676.356 4,71%
Birta lífeyrissjóður 13.658.618 4,38%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 9.917.944 3,18%
SL lífeyrissjóður 9.480.494 3,04%
Stefnir - Innlend hlutabréf 6.352.602 2,04%
Festa - lífeyrissjóður 5.912.391 1,90%
Lífsverk lífeyrissjóður 5.523.243 1,77%
Arion banki hf. 5.344.288 1,72%
Íslandsbanki hf. 4.372.726 1,40%
Vanguard Total Int S 4.203.493 1,35%
Kjálkanes ehf. 3.574.395 1,15%
Vanguard Emerging Markets 3.033.569 0,97%
Vátryggingafélag Íslands hf. 2.300.000 0,74%
Heimild: Nasdaq