Guðmundur Ingi Jónsson var kjörinn í stjórn Reita á aðalfundi fasteignafélagsins í dag. Guðmundur Ingi er framkvæmdastjóri og annar eigenda Kjalar fjárfestingarfélags ehf., sem er sjötti stærsti einstaki hluthafi Reita.

Sex voru í framboði til stjórnar á fundinum, þar af fjórir sitjandi stjórnarmenn auk Guðmundar Inga og Sigurðar Ólafssonar. Guðmundur Kristján Jónsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Eftirfarandi einstaklingar voru kjörnir í stjórn Reita:

  • Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður – setið í stjórn síðan 2009
  • Anna Kristín Pálsdóttir – setið i í stjórn síðan 2024
  • Elín Árnadóttir – var í stjórn 2010-2019 og tók aftur sæti í stjórn árið 2023
  • Kristinn Albertsson – setið í stjórn síðan 2017
  • Guðmundur Ingi Jónsson, nýkjörinn

Guðmundur Ingi hefur setið í fjölda stjórna. Hann er í dag stjórnarformaður Yay og situr auk þess m.a. í stjórnum Suðurorku og Varist. Hann er einnig varamaður í stjórn Solid Clouds og situr í fjárfestingaráði framtakssjóðanna Horn III, Horn IV og Horn V.

Guðmundur starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Byggingarfélagi námsmanna 1994-1997 en hefur síðan starfað við eigin rekstur og með öðrum í fjárfestingum og verkefnum tengdum byggingu og rekstri fasteigna og annarra innviða.

„Reynsla hans af fasteignamarkaði, innviðauppbyggingu og fjármögnun er talin vera styrkur fyrir félagið auk þess að hann fer fyrir eigin fé, sem er talið til þess fallið að auka fjölbreytni í stjórn félagsins,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndar Reita sem tilnefndi Guðmund Inga.

Með milljarða hlut í Reitum

Guðmundur á helmingshlut í Kili fjárfestingarfélagi á móti Þorláki Traustasyni. Kjölur á 3,4% eignarhlut í Reitum að markaðsvirði tæplega 2,6 milljarðar króna. Guðmundur á auk þess 100% hlut í GJ Invest ehf. sem á um 1,0% eignarhlut í Reitum að markaðsvirði 763 milljónir króna.

Kjölur, sem var með eigið fé upp á 7,2 milljarða króna í árslok 2023, er einnig fimmti stærsti hluthafi tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds með 3,7% hlut og stærsti hluthafi fjártæknifyrirtækisins Yay með 26% hlut.

Kjölur seldi félagið Ís­lensk Orku­virkjun Seyðis­firði ehf., sem á og rekur tvær vatns­afls­virkjanir í Fjarðar­á í Seyðis­firði, til HS Orku árið 2023. Innherji greindi frá því að hlutafé HS Orka hefði verið aukið um 5,6 milljarða króna til að fjármagna kaupin.