Samkvæmt fréttaflutningi WSJ mun bandaríska matvælafyrirtækið Kraft Heinz skipta félaginu upp í tvær einingar tæpum áratugi eftir samruna þessara tveggja stærstu fyrirtækja innan pakkaða matvælageirans.

Annað félagið mun taka yfir sölu matvæla og megnið af Kraft-vörum á meðan önnur eining mun sjá um sölu á sósum og áleggjum.

Ákvörðunin er tekin í takt við breyttar neysluvenjur viðskiptavina, sem virðast sækjast nú meira í kryddvörur og sterkar sósur frekar en unnar osta- og kjötvörur.

Talið er að ný eining sem muni selja Kraft vörur geti verið metið á 20 milljarða dala og vonir standa til að sameiginlegt virði tveggja sjálfstæðra fyrirtækja gæti verið meira en 31 milljarða dala markaðsvirði Kraft Heinz. Skiptingin gæti átt sér stað á næstu vikum á meðan verið er að leysa smáatriði.

Fram kemur í frétt WSJ að markaðsvirði Kraft Heinz hafi lækkað verulega árin eftir samrunann en það sem af er ári hefur gengi félagsins lækkað um 12%.