Nær allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu, samkvæmt niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins sem náði til allra þingmanna. Einn þingmaður flokksins kveðst hins vegar andvígur þeim breytingum.
Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins - þar sem spurt var hvort þeir séu almennt hlynntir eða andvígir því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu – segist Ásmundur Friðriksson vera andvígur þeirri útfærslu sem er á heimsendingu áfengis hér á landi „og er eins og hver önnur sprúttsala“.
„Ég er þeirrar skoðunar að það eru engin vandræði á því að verða sér úti um áfengi með því fyrirkomulagi sem hér er og hefur gefist vel hér á landi og víða í nágrannalöndum okkar og mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Aukið aðgengi að áfengi kallar á fleiri meðferðarúrræði og er andsætt lýðheilsustefnu og ábendingum heilbrigðisstarfsmanna,“ segir í skriflegu svari Ásmundar.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra birti á dögunum drög að frumvarpi um breytingar á áfengislögum þannig að heimilt verði að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Árétta skal að svar Ásmundar barst áður en Guðrún birti frumvarpsdrögin.
Bjarni: Engin grundvallarbreyting með innlendum vefverslunum
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að flokkurinn hafi um árabil talað fyrir auknu frelsi í þessum efnum – „að fólki sé treyst til að kaupa löglegar neysluvörur án þess að þær séu afgreiddar af ríkisstarfsmanni. Afstaða mín og flokksins er óbreytt hvað þetta varðar“.
Sjálfur sé hann hlynntur því að heimila starfsemi innlendra vefverslana með áfengi.
„Aðgengi að áfengi hefur aukist mikið undanfarin ár, bæði með fjölgun vínbúða og vínveitingastaða. Það verður engin grundvallarbreyting í þessum efnum við það að heimila innlendum netverslunum starfsemi sem erlendar verslanir hafa mátt stunda um árabil.
Í þessu samhengi skiptir sömuleiðis máli að með rafrænum skilríkjum má tryggja að vörurnar séu ekki seldar fólki undir áfengiskaupaaldri.“
Alls staðfestu fimmtán þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir séu fylgjandi því að heimila innlendum aðilum að stunda smásölu áfengis á netinu.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, kaus að tjá sig ekki en hann hefur haft það að meginreglu að gefa ekki upp afstöðu sína í svörum við tíðum fyrirspurn fjölmiðla.
Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.