Meðal þess sem er að finna í 80 milljarða króna aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna en ríki og sveitarfélög hafa til loka maí til að útfæra verkefnið í sameiningu.
Áætlað er að kostnaður við máltíðirnar nemi um 5 milljörðum króna á ársgrundvelli næstu fjögur árin.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir það sé mjög sérstakt að ríki og sveitarfélög hafi fest sig í svo þröngri nálgun að einblína á skólamáltíðir. Réttast hefði verið að ráðast í breytingar á gjaldskrá sem nýtist fleiri heimilum.
„Fyrir það fyrsta er ég mjög þakklátur að samningar hafi náðst þetta hratt og örugglega. Óvissa er slæm fyrir allan rekstur og heimilin í landinu. Við hjá sveitarfélögunum teljum ekki eftir okkur þessa aðkomu sem getur orðið til þess að stemma stigu við verðbólgu sem er kannski stærsta ógnin fyrir okkar kjarnarekstur og heimilin í hverju sveitarfélagi fyrir sig,“ segir Elliði.
„Ég er hins vegar skeptískur á það hversu þröng nálgun var valin. Að taka einn mjög afmarkaðan þátt út úr gjaldskrá sveitarfélaganna og horfa svona mikið á þann þátt. Ég hefði viljað fara aðra leið og leggja alla gjaldskrá sveitarfélaganna undir þannig þetta nýtist fleiri heimilum heldur en bara fjölskyldum með börn í grunnskóla,“ bætir hann við.
Elliði segist hafa lýst því yfir bæði við forystufólk í verkalýðsfélögunum sem og aðra að hann teldi það einnar messu virði að ganga enn lengra.
„Skila hærri krónutölu til heimilanna með því að frysta gjaldskrár til lengri tíma. Mér finnst skrýtið að sú leið hafi ekki verið skoðuð meira,“ segir Elliði.
„Manni finnst þetta dálítið eins og það eigi að hækka laun örvhentra umfram rétthentra,“ segir Elliði.
Hann segir mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélagið sjái ekki að sjá eftir fjármununum sem fara í verkefnið og að hann vill ganga lengra gagnvart barnafjölskyldum.
„Það er þessi þrönga nálgun og mismunun sem við gjöldum varhug við,“ segir bæjarstjóri Ölfuss.