Andri Jóhannesson, þyrluflugmaður, segir í samtali við Viðskiptablaðið að síminn hjá Norðurflugi hafi ekki stoppað síðan eldgosið á Reykjanesskaga hófst í síðustu viku. Hann segir að það sé allt öðruvísi upplifunin að sjá gosið úr lofti og eru ferðirnar einstakt tækifæri fyrir ferðamenn sem koma frá löndum með litla náttúruvirkni.
„Það vilja bara allir sjá þetta úr lofti enda er sú upplifun allt önnur. Ef þú gengur þangað, sem er frábært á sinn hátt, þá kemstu ekki að gígnum á sama hátt og ef þú sérð þetta úr lofti. Í þyrlu er þetta bara eins og maður sé búinn að kaupa sér stúkusæti á leik í meistaradeildinni.“
Andri segir þyrluferðir vera hagkvæmari kostur fyrir marga ferðamenn sem vilji nýta tímann sinn betur meðan það er á landinu. „Þetta er rúmlega 40 mínútna túr fram og til baka, svo ertu bara mættur aftur til baka á Apótekið í góða steik. En ef þú ætlar hina leiðina þá þarf að keyra í 40 mínútur og labba svo í nokkra tíma.“
Norðurflug hefur boðið upp á þyrluferðir að gosstöðvum frá því eldgos hófst í Fagradalsfjalli árið 2021 og hefur Andri flogið með ferðamenn yfir öll gosin sem fylgdu í kjölfarið.
„Ég man eftir því þegar ég fór með Ísraelsmenn í fyrsta gosinu. Þetta var fólk sem var í kringum sextugt og þau sögðu mér frá því að þau voru búin að eltast við að reyna að sjá eldgos í 40 ár. Þau komust nálægt einhverju gosi áður en var svo snúið við og svo náðu þau loksins að sjá gos hér á Íslandi. Þannig þegar við lentum þá voru bara hoppandi og grátandi,“ segir Andri.
Fjármagn fylgir ekki fólksfjölgun
Andri flýgur bæði fyrir Norðurflug og Landhelgisgæsluna og segir að útköllum hafi fjölgað gífurlega á stuttum tíma. „Í fyrra áttum við metár og þá bárust 299 útköll og það stefnir í að við séum að fara slá það met núna í ár.“
Hann segir að fjöldi útkalla helst í hendur við bæði fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna en fjármagn til viðbragðsaðila fylgi hins vegar ekki þeirri fjölgun.
„Gott dæmi er slysastofa Borgarspítalans. Þegar hún var byggð á sínum tíma þá bjuggu 100 þúsund manns í Reykjavík. Í dag búa 247 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu en slysastofan hefur ekkert stækkað. Hún er nákvæmlega eins og hún var þegar hún var byggð fyrir 100 þúsund manns. Ofan á þetta koma allir túristarnir og þetta er líka svona hjá okkur í gæslunni,“ segir Andri.