Kínversk stjórnvöld tóku nýlega fyrstu skóflustungu að uppbyggingu á 167 milljarða dala stíflu í Tíbet en stíflan verður sú stærsta í heiminum. Kínverjar kalla framkvæmdina verkefni aldarinnar en stíflan sjálf verður staðsett í suðurhluta Tíbets.
Verkefnið hófst formlega þann 19. júlí sl. í tíbesku borginni Nyingchi og samkvæmt South China Morning Post verður stíflan þrisvar sinnum stærri en hin fræga Þriggja Gljúfra-stífla í miðhluta Kína.
Stærð stíflunnar er gríðarleg en umfang steypunnar sem þarf til að byggja hana er 116 sinnum meira en þyrfti til að byggja Empire State-skýjakljúfann í New York og myndi steypan nægja til að leggja þjóðveg fimm sinnum í kringum jörðina.
Tilgangur verkefnisins er tilraun af hálfu Xi Jinping forseta Kína til að blása nýju lífi í efnahag landsins. Stíflan snýst þó ekki aðeins um orkugjöf heldur mun hún veita kínverskum stjórnvöldum öflugt tól til að aðlaga Tíbet enn meira að kínverska drauminum.
Áformin hafa þá endurvakið spurningar um þau áhrif sem kínversk stjórnvöld eru að hafa á tíbeska menningu og hvort verið sé að grafa enn frekar undan menningu og sjálfstjórn Tíbeta í þágu kínversks yfirráða.
Forsagan
Tíbet er í dag skilgreint sem sjálfsstjórnarhérað í Kína og er oft kallað þak himinsins þar sem tíbeska hásléttan liggur í 4.500 metra hæð yfir megnið af landinu. Jafnvel áður en heimsveldaumræðan um Kína hófst var mikið þrætt um Tíbet og sjálfstæði svæðisins.
Tíbet féll formlega undir stjórn Kínverska alþýðuveldisins árið 1951 en tengsl þessara tveggja velda eiga sér langa sögu að baki.
Á sjöundu og áttundu öld voru bæði Tíbet og Kína öflug keisaraveldi sem börðust um yfirráð og réðust herir þeirra reglulega inn í höfuðborgir hvors annars. Á hápunkti tíbeska keisaraveldisins náði veldið yfir fjögurra milljóna ferkílómetra svæði og væri í dag skilgreint sem sjöunda stærsta ríki heims.
Árið 821 undirrituðu Tíbet og Kína friðarsáttmála en skömmu síðar varð röð borgarastyrjalda í Tíbet sem leiddi til falls tíbeska keisaraveldisins. Mongólska keisaraveldið hertók síðan Tíbet á hápunkti sínum en þar á undan höfðu herir kínverska keisaraveldisins, herir Úígúra til norðurs og herir Arabalanda til vesturs ráðist inn í Tíbet til að endurheimta töpuð landsvæði.

Átök héldu síðan áfram næstu aldirnar og á 18. öld réðust hermenn Qing-keisaraveldisins inn í Tíbet til að neyða nepalska herinn, sem hafði þá reynt að hertaka Tíbet, úr landinu. Eftir fall keisaraveldisins árið 1912 bauð Kínverska lýðveldið Dalai Lama að endurheimta titil sinn sem þjóðhöfðingi undir kínverskri stjórn en hann neitaði að taka við stjórn á kínverskum forsendum og gerðist sjálfur leiðtogi á áratugunum sem fylgdu, en Kína var þá of veikburða til að ná yfirráðum yfir Tíbet.
Eftir endalok kínversku borgarastyrjaldarinnar árið 1949 réðust hermenn Alþýðuveldisins inn í Tíbet ári seinna og sömdu við Dalai Lama um að Kínverjar myndu öðlast yfirráð yfir Tíbet á meðan munkastjórnin viðhéldi ákveðinni sjálfsstjórn.
Uppreisn varð síðan árið 1959 en hún var barin niður af hörku og í kjölfarið flúðu Dalai Lama og fylgjendur hans til Indlands þar sem þeir hafa aðsetur enn þann dag í dag. Á tímum kalda stríðsins jókst umræðan um yfirráð á Tíbet enn frekar þar sem deilan fór að snúast ekki aðeins um landsvæði heldur líka um trúfrelsi, kúgun og menningarvarðveislu.
Menningarkostnaður og efnahagsþróun
Kínversk stjórnvöld vilja meina að efnahagur Tíbet hafi þrjúhundruðfaldast í stærð á undanförnum áratugum og að meðalaldur fólks hafi einnig hækkað úr 35 árum í 72 ár undir kínverskri stjórn.
Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, segir að Tíbetar hafi vissulega nýtt sér þá efnahagsþróun sem kínversk stjórnvöld hafi stuðlað að í gegnum árin en margir óttast að með henni sé einnig verið að grafa undan hefðbundinni tíbeskri menningu.
„Kína er fjölmenningarsamfélag en Kínverjar fara mjög sérstakar og ákveðnar leiðir til að tryggja samfélagslegan frið og koma í veg fyrir átök milli þjóðarbrota, leiðir sem vestræn einstaklingsfrelsishyggja getur ekki fallist á.“
„Það er full ástæða til að huga að skilningi Kínverja á mannréttindahugtakinu sem endurspeglar þeirra samfélagslegu og heimspekilegu viðhorf.“
Geir segir að markmið kínverskra stjórnvalda sé að stuðla að aukinni samþættingu við ráðandi kínversk gildi en telur að það væri ofsögum sagt að segja að verið sé að útrýma tíbeskri menningu.
Hann segir jafnframt að gagnrýni vestrænna aðila sé umhugsunarverð í ljósi þess hversu illa hefur gengið hjá vestrænum samfélögum að samþætta ólíka þjóðernishópa með stefnum sem hafa leitt til aukinnar glæpatíðni, ofbeldisverka og almenns óöryggis.
„Það er líka full ástæða til að huga að skilningi Kínverja á mannréttindahugtakinu sem endurspeglar þeirra samfélagslegu og heimspekilegu viðhorf. Þeir líta svo á að seinni hluti mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. samfélagsleg réttindi almennings til atvinnu, félagslegs og efnahagslegs öryggis, gangi framar einstaklingsréttindunum sem tiltekin eru í fyrri hlutanum. Grundvallaratriðið er að einstaklingsfrelsið eigi ekki að bitna á hagsmunum heildarinnar.“
Sjálfstæðisspurningin
Í gegnum árin hafa kröfugöngur átt sér stað á götum vestrænna borga og háskólalóða þar sem mótmælendur hafa gengið um með skilti sem á standa „Free Tibet“. Mótmælin eru ekki ný af nálinni og endurspegla þá hugmynd að Tíbet sé kúgað af Kína og þurfi á sjálfstæði að halda.
Raunin er þó flóknari en sú hugmynd sem margir halda á lofti um að Tíbet hafi verið nokkurs konar búddistaparadís þar til hún endaði undir valdastjórn Kína. Samfélagið var til að mynda þrælasamfélag undir harðræði munkastjórnarinnar.
„Flestir gera sér grein fyrir því enda hefur Dalai Lama sjálfur viðurkennt harðræðið sem viðgekkst í Tíbet undir munkastjórninni, en það hefur ekki haft teljandi áhrif á afstöðu þeirra sem líta Kína hornauga.“
Geir segist skilja þá löngun meðal þjóða sem viðhalda eigin tungumáli og hefðum að vilja ráða sér sjálfar en það er ómögulegt að spá fyrir um það hvað myndi gerast ef Tíbet yrði sjálfstæð þjóð.
„Margir eru þeirrar skoðunar að alvarleg valdaátök væru óumflýjanleg yrði Tíbet sjálfstæð þjóð, því nokkrir hópar gera þar tilkall til veraldlegra valda og alls ekki allir á einu máli um að Dalai Lama ætti að vera við völd.“

Hann bætir við að hagsmunir kínverskra stjórnavalda séu einnig mjög áþreifanlegir en Tíbet er til að mynda heppilegt tengi- og varnarsvæði (e. buffer zone) á milli Kína og Indlands sem lengi hafa átt í landamæradeilum.
Tíbet býr einnig yfir gríðarlegum vatnsforða sem skiptir Kínverja sífellt meira máli samfara auknum vatnsskorti austanmegin í ríkinu.
Færi svo að Tíbet öðlist sjálfstæði gæti það einnig sett í gang alvarleg dómínóáhrif fyrir stjórnvöld í tengslum við önnur kínversk sjálfsstjórnarhéruð eins og Xinjiang og Innri Mongólíu sem gætu líka gert kröfu um aðskilnað frá Alþýðuveldinu.
„Það myndi jafnframt draga úr líkunum á því að endurheimta Taívan. Þegar allir þessir hagsmunir eru lagðir saman ætti öllum að vera ljóst að mikið þyrfti að eiga sér stað til að kínversk yfirvöld gætu fallist á sjálfstæði Tíbets. Þannig er einfaldlega staðan.“