Heilbrigðistæknifyrirtækið Helix og hugbúnaðarfyrirtækið Gangverk hafa gert samstarfssamning um þróun á hugbúnaðarlausnum fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.

Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix, segir í samtali við Viðskiptablaðið að nauðsynlegt sé að hugsa heilbrigðiskerfið upp á nýtt. Aukin áhersla á nýsköpun og tæknilausnir muni létta álagið á kerfinu, minnka skriffinnsku og bæta þjónustu.

Heilbrigðistæknifyrirtækið Helix og hugbúnaðarfyrirtækið Gangverk hafa gert samstarfssamning um þróun á hugbúnaðarlausnum fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.

Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix, segir í samtali við Viðskiptablaðið að nauðsynlegt sé að hugsa heilbrigðiskerfið upp á nýtt. Aukin áhersla á nýsköpun og tæknilausnir muni létta álagið á kerfinu, minnka skriffinnsku og bæta þjónustu.

Hún segir að það þurfi að bregðast við ákveðinni þróun innan heilbrigðiskerfisins, sem standi nú frammi fyrir stórum áskorunum. Íbúum hafi fjölgað og aldur þjóðarinnar fari eins hækkandi og þá þurfi að nýta nýsköpun og tæknilausnir.

„Eins og staðan er í dag eyðir heilbrigðisstarfsfólk of miklum tíma í skriffinnsku og minni tíma í þjónustu við sjúklinga. Einstaklingurinn er vannýtt auðlind í heilbrigðisþjónustu, og það eru mikil tækifæri til að þróa lausnir þar sem einstaklingurinn er hafður í forgrunni. Með því að valdefla einstaklinginn trúum við að hægt sé að létta álag á heilbrigðisstarfsfólki. Tækifærin á Íslandi til að vera fremst í notkun heilbrigðistækni eru til staðar, nú þarf bara að nýta þau,” segir Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix.

Yfir síðastliðin 30 ár hefur starfsfólk Helix komið að flestöllum tæknilegum innleiðingum innan íslenska heilbrigðiskerfisins á einn eða annan hátt. Má þar nefna Sögu sjúkraskrá, Heilsuveru, Heklu heilbrigðisnet og skimunar- og bólusetningarkerfi sem voru nýtt í Covid faraldrinum.

Gangverk er íslenskt hugbúnaðarhús sem sérhæfir sig í hugbúnaðarþróun og stafrænni umbreytingu fyrirtækja. Gangverk hafa leitt breytingarferli hjá alþjóðlegum fyrirtækjum líkt og Sotheby’s, og CBS auk risaumbreytingu á einni stærstu heimahjúkrunarkeðju Bandaríkjanna, TheKey.

„Við berum mikla virðingu fyrir þeirri þekkingu sem býr í íslensku heilbrigðiskerfi og hlökkum til að gera hana aðgengilegri og skilvirkari fyrir alla, bæði fyrir heilbrigðisstarfsfólk og almenning. Í þessu felst okkar sérþekking, að uppfæra, umbreyta og bæta mikilvæg kerfi á meðan þau eru í fullri, jafnvel lífsnauðsynlegri keyrslu. Þetta verður áskorun en í því felast jafnframt ótrúleg tækifæri sem við erum þakklát fyrir að taka þátt í,“ segir Atli Þorbjörnsson, forstjóri Gangverks.