Við­skipti með hluta­bréf námu­félagsins Amaroq Minerals voru stöðvuð á kana­díska hluta­bréfa­markaðnum TSX Venture Exchange síð­degis í gær, eftir óvenju­lega miklar og snöggar sveiflur í verði.

Stöðvunina fram­kvæmdi kana­díska fjár­festingar­eftir­litið CIRO klukkan 13:37 að staðartíma á meðan stofnunin óskaði eftir frekari upp­lýsingum frá félaginu.

Áður en við­skipti voru stöðvuð hafði hluta­bréfa­verð Amaroq tvöfaldast og farið úr 1,47 kana­da­dölum í 2,90 dali á örfáum mínútum síð­degis. Þetta er hæsta skráða verð í sögu félagsins og jafn­gildir 97% hækkun frá loka­verði dagsins áður.

Sam­kvæmt gögnum frá markaðsvefnum MarketWatch má sjá að hækkunin var ekki af­leiðing af dreifðum og stöðugum við­skiptum yfir daginn, heldur má rekja hana beint til ein­stakra stór­við­skipta sem virðast hafa riðið af stað keðju­verkun í markaðnum.

Gengið var stöðugt í kringum 1,47 dali nær allan daginn þar til undir lok við­skipta­dags hófst mjög skörp hækkun sem dró með sér veru­lega veltu á skömmum tíma.

Heildar­velta dagsins nam 128.520 hlutum, sem jafn­gildir 196% aukningu miðað við meðal­veltu síðustu 65 við­skipta­daga, sem er 65.600 hlutir.

Þessi snöggu viðbrögð með til­heyrandi verðhækkun og aukinni veltu vöktu at­hygli eftir­lit­saðila sem gripu til stöðvunar við­skipta á meðan unnið var að upp­lýsingasöfnun.

Í yfir­lýsingu frá Amaroq sagði félagið að stjórn­endur væru „ekki meðvitaðir um neinar efnis­legar breytingar í starf­semi félagsins sem rétt­læta ný­legt áhlaup á bréfin“.

Engar opin­berar til­kynningar hafa komið frá félaginu sem skýra skyndi­legan áhuga eða verðstökk bréfanna.

Á meðan við­skipti eru stöðvuð í Kanada halda þau áfram í London og á Ís­landi þar sem Amaroq er þrískráð.

Félagið birti ný­lega upp­færða tækniskýrslu um rekstur sinn og eignir en engar nýjar upp­lýsingar liggja fyrir sem út­skýra kaupþrýsting gær­dagsins.

Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um 7,6% í Kauphöll Íslands í 74 milljón króna veltu í morgun. Gengi félagsins stendur í 148 krónum þegar þetta er skrifað.