Viðskipti með hlutabréf námufélagsins Amaroq Minerals voru stöðvuð á kanadíska hlutabréfamarkaðnum TSX Venture Exchange síðdegis í gær, eftir óvenjulega miklar og snöggar sveiflur í verði.
Stöðvunina framkvæmdi kanadíska fjárfestingareftirlitið CIRO klukkan 13:37 að staðartíma á meðan stofnunin óskaði eftir frekari upplýsingum frá félaginu.
Áður en viðskipti voru stöðvuð hafði hlutabréfaverð Amaroq tvöfaldast og farið úr 1,47 kanadadölum í 2,90 dali á örfáum mínútum síðdegis. Þetta er hæsta skráða verð í sögu félagsins og jafngildir 97% hækkun frá lokaverði dagsins áður.
Samkvæmt gögnum frá markaðsvefnum MarketWatch má sjá að hækkunin var ekki afleiðing af dreifðum og stöðugum viðskiptum yfir daginn, heldur má rekja hana beint til einstakra stórviðskipta sem virðast hafa riðið af stað keðjuverkun í markaðnum.
Gengið var stöðugt í kringum 1,47 dali nær allan daginn þar til undir lok viðskiptadags hófst mjög skörp hækkun sem dró með sér verulega veltu á skömmum tíma.
Heildarvelta dagsins nam 128.520 hlutum, sem jafngildir 196% aukningu miðað við meðalveltu síðustu 65 viðskiptadaga, sem er 65.600 hlutir.
Þessi snöggu viðbrögð með tilheyrandi verðhækkun og aukinni veltu vöktu athygli eftirlitsaðila sem gripu til stöðvunar viðskipta á meðan unnið var að upplýsingasöfnun.
Í yfirlýsingu frá Amaroq sagði félagið að stjórnendur væru „ekki meðvitaðir um neinar efnislegar breytingar í starfsemi félagsins sem réttlæta nýlegt áhlaup á bréfin“.
Engar opinberar tilkynningar hafa komið frá félaginu sem skýra skyndilegan áhuga eða verðstökk bréfanna.
Á meðan viðskipti eru stöðvuð í Kanada halda þau áfram í London og á Íslandi þar sem Amaroq er þrískráð.
Félagið birti nýlega uppfærða tækniskýrslu um rekstur sinn og eignir en engar nýjar upplýsingar liggja fyrir sem útskýra kaupþrýsting gærdagsins.
Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um 7,6% í Kauphöll Íslands í 74 milljón króna veltu í morgun. Gengi félagsins stendur í 148 krónum þegar þetta er skrifað.