Fyrrverandi sölumaður hjá Eirberg var með dómi Hæstaréttar í gær sýknaður af kröfu félagsins um greiðslu bóta vegna brots gegn trúnaðarskyldum í vinnusambandi. Að mati Eirbergs fólst brotið í að sannfæra birgja félagsins til þrjátíu ára, um að segja skilið við Eirberg og hefja viðskipti við nýstofnað félag sitt. Með þessu staðfesti dómurinn niðurstöðu Landsréttar.

Maðurinn hóf störf hjá Eirbergi árið 2005 allt þar til honum var sagt upp í október 2015. Uppsagnarfrestur rann sitt skeið í janúar 2016. Í nóvember 2015, meðan maðurinn vann uppsagnarfrest sinn, stofnaði hann einkahlutafélagið Títus. Samhliða voru hann og fyrirsvarsmaður Guldmann, sem meðal annars framleiðir lyftur fyrir farlama sjúklinga, í samskiptum um að hið nýja félag tæki yfir sölu vara Guldmann hér á landi. Varð það síðan úr.

Þegar Eirberg komst á snoðir um það rifti Eirberg samningi mannsins en samkvæmt mati dómkvadds matsmanns nam töpuð framlegð vegna tilfærslu Guldmann tæplega 30 milljónum. Við það bættust varahlutir sem nýttust ekki og krafa um endurgreiðslu launa í uppsagnarfresti. Alls hljóðaði dómkrafan upp á tæpar 34 milljónir.

Í ráðningarsamningi mannsins var ákvæði um þagnarskyldu sem gilda átti eftir að hann hætti störfum. Þá var þar enn fremur ákvæði um hálfgert samkeppnisbann. Var það orðað á þann veg að ef starfsmaðurinn hætti störfum hjá félaginu „[væri þess] óskað að hann hefji ekki störf hjá samkeppnisaðila innan 6 mánaða frá starfslokum“.

Félagið bar halla af orðalaginu

Í skýrslu starfsmanna Guldmann fyrir Landsrétti, sem vísað er til í dómi Hæstaréttar, kom fram að starfsmaðurinn hefði ekki að fyrra bragði haft samband við félagið um að taka yfir umboðið hér á landi. Þvert á móti hefði hann, við heimsókn hingað til lands, orðið fyrir vonbrigðum með hvaða áherslu Eirberg hefði lagt á vörur félagsins og talið að staðan yrði enn verri við brotthvarf mannsins.

Að mati héraðsdóms var ljóst að starfsmaðurinn hefði hafið undirbúning samkeppnisrekstrar á meðan hann var enn ráðinn hjá Eirbergi. Fallist var á að félagið hefði orðið fyrir tjóni en bætur dæmdar að álitum, tíu milljón krónur, auk gífurlega hás málskostnaðar, sjö milljón krónur. Landsréttur sneri þeim dómi við þar sem starfsmaðurinn hefði ekki gripið til neinna ráðstafana, sem brotið hefðu gegn samningnum fyrr en eftir að honum var rift.

Áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar var veitt á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa almennt áhrif á skýringu réttarreglna um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Sagði í dóminum að samningsákvæðið hefði ekki að geyma samkeppnisbann. Nauðsynlegt hefði verið að kveða skýrt á um það ef ætlun félagsins hefði verið að takmarka atvinnufrelsi starfsmannsins og félagið látið bera hallann af því.

Að mati dómsins þótti ekki sannað að starfsmaðurinn hefði gripið til nokkurra aðgera til að koma á viðskiptasambandi við Guldmann áður en samningnum var rift. Af þeim sökum var maðurinn sýknaður af kröfu félagsins og honum dæmd ein milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti. Áður hafði hann fengið tvær milljónir vegna málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.