Á meðan Novo Nordisk nær ekki að anna eftirspurn eftir þyngdarstjórnunarlyfjum í Bandaríkjunum eru ódýrari eftirlíkingar að ná markaðshlutdeild.
Þetta kemur fram í greiningu Citibank en danski viðskiptamiðillinn Børsen greinir frá.
Samkvæmt greiningardeild bankans er „eitt af fimm þyngdarstjórnunarlyfjum á markaði með heimablandað GLP-1.“
Um er að ræða vörur frá fyrirtækjunum Him & Hers Health og Noom sem bjóða ódýrari lausnir en þyngdarstjórnunarlyf þeirra kosta á bilinu 200 til 300 dali á mánuði á meðan einn mánuður af Wegovy frá Novo Nordisk kostar 1349 dalir.
Samkvæmt Børseneru fyrirtækin að nýta sér smugu í bandarískum lögum sem leyfir lyfjafyrirtækjum að gefa út ódýrari eftirlíkingar.
Bandaríski viðskiptamiðillinn Barrons greinir frá því að Him & Hers Health og Noom séu að nýta sér samfélagsmiðla til að auglýsa vörurnar sínar og er varla hægt að opna slíka miðla vestanhafs án þess að fá auglýsingu um þyngdarstjórnunarlyf í andlitið.
Geoff Cook, forstjóri Noom, segir að um milljón Bandaríkjamenn séu að kaupa þyngdarstjórnunarlyf þeirra um þessar mundir.
Greiningardeild Citi áætlar að um 100 þúsund manns séu í áskrift hjá Him & Hers Health.
„Við vonum að Bandaríkjaþing rannsaki þessi félög sem eru að blekkja almenning og stofna sjúklingum í hættu,“ sagði Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri Nova Nordisk, á opnum nefndarfundi vestanhafs nýverið.
Samkvæmt Barrons hefur Novo Nordisk stefnt fjölmörgum félögum fyrir að vera að blanda ódýrari útgáfum af þyngdarstjórnunarlyfjum félagsins.