Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það hljóti að vera eitt af fyrstu verkefnum þingsins eftir kosningar að takast á við eggjaskortinn sem hefur verið að aukast á árinu með því að lækka tolla.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að Félag atvinnurekenda hafi verið í stöðugum samskiptum við matvælaráðuneytið en að vinna ráðuneytisins við að kortleggja framboð hafi hafist allt of seint.

„Að okkar mati var tíminn ekki vel nýttur. Alþingi sat í heilan mánuð eftir að matvælaráðuneytið hafði fengið erindið til sín, án þess að nokkurt frumvarp væri flutt“ segir Ólafur.

Hann bætir við að eggjaskortur bitni fyrst og fremst á stórnotendum eins og veitingahúsum og matvælaframleiðendum og dæmi séu um að birgjar nái aðeins að sinna um helmingi pantana frá stórnotendum.

Eggjaskortur hefur verið á landinu allt þetta ár og segir Ólafur að skortur á stórnotendamarkaði sé aðkallandi vandamál. Bæði Félag atvinnurekenda og verslanir hafa óskað eftir tímabundinni niðurfellingu til að koma í veg fyrir verðhækkanir og skort fyrir komandi jól.

„Við erum ekki að leggja til að eggjatollar verði felldir niður til frambúðar. Innlendir framleiðendur þurfa því ekki að hafa neinar áhyggjur af slíku. Við erum bara að segja að það sé skortur á vörunni og til að tryggja hagsmuni neytenda þá þarf að fella tollana niður tímabundið.“

Aðspurður um framboð og verðlag á eggjum fyrir jólin segir Ólafur að það komi til kasta nýrrar ríkisstjórnar og þings að ákveða niðurfellingu tolla eftir kosningar. Hann sér ekki fyrir sér að sett verði bráðabirgðalög en vill að málið verði eitt af þeim fyrstu verkefnum sem tekið verði fyrir á þingi.

„Við vonum að matvælaráðuneytið leggi fram skynsamlega tillögu í þessu máli, og að matvælaráðherra og Alþingi bregðist skjótt við, eins og var klárlega vilji Alþingis ef svona tilfelli kæmu upp þegar búvörulögunum var breytt fyrir fimm árum.“