Fjögur ár eru liðin frá því að skipunartími Ásgeirs Jónssonar í embætti seðlabankastjóra hófst. Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára og því eru tólf mánuðir eftir af skipunartíma Ásgeirs.
Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands er aðeins hægt að skipa sama mann í embætti seðlabankastjóra tvisvar sinnum. Verði Ásgeir endurskipaður, þá mun hann gegna embættinu til ársins 2029.
Tími Ásgeirs í Seðlabankanum hefur verið viðburðaríkur. Hálfu ári eftir skipun hans í embætti skall kórónuveirufaraldurinn á. Seðlabankinn brást við hinni miklu óvissu sem hagkerfið stóð frammi fyrir með að lækka stýrivexti niður í 0,75% en þeir höfðu aldrei verið lægri í sögu bankans.
Líkt og víða um heim jókst verðbólga hér á landi þegar líða tók á faraldurinn, m.a. vegna aukins peningamagns í umferð, raskana á aðfangakeðjum og áhrifa stríðsins í Úkraínu. Verðbólgan fór hæst í 10,2% í febrúar síðastliðnum en mældist 7,6% í síðasta mánuði. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 8 prósentur, úr 0,75% í 8,75%, á rúmum tveimur árum og búist er við annarri hækkun á miðvikudaginn næsta.
Tímabundið verkefni
Frá því að verðbólgan tók að aukast hefur Ásgeir iðulega kallað eftir samstöðu hjá hinu opinbera og aðilum vinnumarkaðarins til að ná verðbólgunni aftur í markmið. Hann hefur t.d. reglulega kallað eftir að ríkið dragi úr útgjöldum og hætti hallarekstri í núverandi efnahagsumhverfi. Við síðustu vaxtaákvörðun í vor sagði hann vinnumarkaðinn neita að taka ábyrgð á hlutverki sínu í baráttunni við verðbólguna.
Í þeim efnum er vert að minnast á ummæli hans í viðtali við Þjóðmál haustið 2021, þar sem hann var spurður út í samskipti og átök við hina ýmsu hagsmunahópa.
„Það er meiriháttar mál að lenda upp á kant við þá og ég veit að ég er að fara að gera það á einhverjum tímapunkti, hvort sem það eru öflugir fjármálamenn, atvinnugreinar eða verkalýðshreyfingin, sem eru allt hagsmunahópar sem hafa mikil áhrif,“ sagði Ásgeir.
„Allir hagsmunahópar hafa gild sjónarmið og þau sjónarmið munu alltaf koma fram með einum eða öðrum hætti í þjóðfélagsumræðunni. Ég er alveg tilbúinn að eiga við þá samtal, finna sameiginlega hagsmuni og eftir tilvikum takast á við þá. Þannig er þetta bara. Ég er skipaður seðlabankastjóri til fimm ára, búinn með tvö ár af þeim. Hvort ég fæ skipun aftur á eftir að koma í ljós en ég er ekki að fara að starfa í Seðlabankanum ævina á enda. Þetta er aðeins tímabundið verkefni fyrir mig. Hvað sem því líður er ég ekki að fara að beygja mig undir pólitískan þrýsting eða aðra hagsmunahópa.“
Í viðtali við Frjálsa verslun í nóvember síðastliðnum sagði Ásgeir að margt hafi komið sér á óvart í starfi seðlabankastjóra, til að mynda hin nákvæma stjórnsýsla innan bankans. Stór hluti af starfinu felist í að stjórna nefndarfundum en nær allar ákvarðanir bankans séu teknar í nefndum sem hann er formaður yfir.
Ásgeir nefndi einnig að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi verið erfiðasta verkefnið sem hann hefur fengist við sem seðlabankastjóri. Hann taldi sameininguna hafa sannað gildi sitt í Covid en Seðlabankanum hafi tekist að samræma viðbrögð peningastefnunnar, fjármálastöðuleikans og fjármálaeftirlitsins.
Tjáð sig meira og oftar en forverar sínir
Ásgeir hefur oft vakið mikla athygli með ummælum sínum um hin ýmsu málefni. Þar má m.a. nefna ummæli um litla íbúðauppbyggingu í Reykjavík, að ámælisvert væri að Sundabraut hafi ekki verið byggð og að tíðar tásumyndir frá Tenerife væru merki um mikla einkaneyslu. Í aðdraganda þingkosninga 2021 var mikið rætt um gagnrýni hans á hugmyndir Viðreisnar um festingu krónunnar við evruna.
Í framangreindu viðtali við Frjálsa verslun féllst Ásgeir á að hann hefði tjáð sig opinberlega meira og oftar en forverar sínir. Slík stefna væri að einhverju leyti tímanna tákn og Seðlabankar úti í heimi væru almennt opinskárri en áður sem rekja megi til tilkomu verðbólgumarkmiðs þar sem grundvallaratriði sé að hafa áhrif á væntingar.
Hvað varðar þjóðfélagsumræðu á íslandi þá sagði Ásgeir að hún hafi í gegnum árin verið gegnsýrð af pólitík.
„Pólitíkin hefur sögulega verið yfirgnæfandi í þjóðfélagsumræðunni hérlendis, sem hefur stundum verið á kostnað raunsæis og staðreynda. Stundum tekur þjóðin maníu í einhverju máli – sem þó endist sjaldnast lengi. En samt sem áður hefur umræða um mörg mál hefur stjórnast af orðræðu stjórnmálamanna og sérhagsmunasamtaka.
Hér er lítil hefð verið fyrir því að embættismenn blandi sér í umræðuna, jafnvel þó þeir væru einungis að koma á framfæri hreinum og beinum staðreyndum. Öllu er snúið upp í pólitískan skollaleik. Það má samt auðvitað velta fyrir sér hversu langt embættismenn geta gengið í þessum efnum. Á fundum seðlabankastjóra erlendis er það nú mjög mikið rætt – hve mikið hægt er að tjá sig án þess að misstíga sig.“
Verðlaunaður seðlabankastjóri
Haustið 2022 fékk Ásgeir hæstu einkunn í mati Globe Finance á seðlabankastjórum í heiminum en hann var sá eini sem fékk einkunnina A+. Í byrjun þessa árs valdi fjármálatímaritið The Banker Ásgeir sem seðlabankamann ársins.
Bæði tímarit hrósuðu Ásgeiri fyrir að hafa haft forystu um að Seðlabanki Íslands yrði fyrstur seðlabanka á Vesturlöndum til að hækka vexti í maí 2021. Jafnframt var beiting þjóðhagsvarúðartækja lofað.
Ásgeir, sem hafði síðast starfað sem deildarforseti hagfræðideildar HÍ, tók við embættinu af Má Guðmundssyni haustið 2019 sem hafði stýrt Seðlabankanum í tíu ár. Ásgeir var meðal sextán umsækjenda um embættið. Auk hans hafði hæfnisnefnd metið Arnór Sighvatsson, Gylfa Magnússon og Jón Daníelsson mjög vel hæfa til að gegna embættinu.