Franska matvöruverslunin Carrefour hefur tekið upp á því að setja límmiða í hillur sínar til að sýna viðskiptavinum hve mikið ákveðin vara hefur minnkað. Verslunin tekur meðal annars fyrir Lipton íste, Lindt-súkkulaði og Viennetta-ísinn.

Tilgangur límmiðanna er að berjast gegn svokölluðu „shrinkflation“ þar sem framleiðendur minnka pakkninga eða pakkningarinnihald á vörum án þess að lækka verðið.

Carrefour segir að með þessu vilji verslunin þrýsta á framleiðendur til að viðhalda lágum verðum en margir í Frakklandi hafa, rétt eins og á Íslandi, glímt við verðbólgu og verðhækkanir undanfarin misseri.

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, kallaði saman 75 neytendahópa og smásöluaðila til fundar síðastliðinn júní og sakaði meðal annars framleiðendur um að rukka viðskiptavini langt umfram verðbólgu.

Verslunin hefur hingað til nefnt 26 mismunandi vörur í verslun sinni frá fyrirtækjum á borð við Nestlé, PepsiCo og Unilever þar sem innihald vörunnar hefur minnkað.

Flaska af Lipton Ice Tea með sykurlausu ferskjubragði hefur til að mynda minnkað úr 1,5 lítrum í 1,25 lítra. Viennetta ísinn, sem framleiddur er af Unilever, hefur minnkað úr 350g niður í 320g.

Möguleg vinnubrögð á Íslandi

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtaka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann sé hæstánægður með ákvörðun Carrefour. Hann segir þetta vera ein leið til að tryggja meiri upplýsingagjöf til neytenda.

Hann bætir við að Neytendasamtök væru mjög glöð að sjá slík vinnubrögð hér á Íslandi og að það sé ekkert í íslenskum lögum sem banni verslunum að benda á að vara hafi minnkað en viðhaldið sama verði.

Það er ekki óeðlilegt að verslanir bendi á slíkt en Bónus birti meðal annars auglýsingu á dögunum þar sem bent var á að 42% af verðlagi á kjúklingabringum rynni til ríkissjóðs í formi tolla og virðisaukaskatts.

„Mér finnst þetta bara frábær vinnubrögð hjá Carrefour og þetta er eitthvað sem íslenskar verslanir ættu að taka sér til fyrirmyndar,“ segir Breki.