Ólafur Hauks­son, fram­kvæmda­stjóri Pro-forma og afi leikskóla­barns, segir Kennara­sam­bandið sýna vægast sagt heift og hefni­girni í greinar­gerð sinni fyrir Félags­dómi, sem birt var í gær.

Í greinar­gerðinni krefst Kennara­sam­bandið þess að fyrstu verk­föllin í fjórum leikskólunum haldi áfram, óháð því hvernig Félags­dómur úr­skurði um önnur verk­föll.

„Leikskólarnir fjórir voru þeir einu sem völdust í fyrstu hrinu verk­fallsins, en hún stóð í fimm vikur. Þegar verk­föllin hófust aftur nú í byrjun febrúar bættist sjötta vikan við hjá börnunum í þessum leikskólum og sú sjöunda hefði verið að byrja ef Félags­dómur hefði fallist á þessa sér­stöku kröfu Kennara­sam­bandsins,“ skrifar Ólafur í að­sendri grein á Vísi í morgun.

Að hans sögn hefði Kennara­sam­bandið mátt vita að annaðhvort yrðu öll verk­föllin dæmd lög­mæt eða ólög­mæt.

„Þessi til­raun til að undan­skilja verk­föllin í leikskólunum fjórum er því ekkert annað en hefnarað­gerð gegn for­eldrunum sem fóru í mál við Kennara­sam­bandið og Félag leikskóla­kennara þar sem þau töldu verk­föllin ólög­leg,“ skrifar Ólafur.

Héraðs­dómur vísaði málinu frá og taldi að Félags­dómur ætti frekar að skera úr um lög­mætið en líkt og greint var frá í gær dæmdi Félags­dómur verk­föllin sem hann hefur nú gert, verk­föllin eru ólög­mæt.

„For­eldrarnir höfðu því rétt fyrir sér. For­svars­menn kennara fóru í mikla fýlu út af þessari málssókn og átöldu for­eldra fyrir að vera að skipta sér af kjara­baráttu þeirra. Með því að reyna að undan­skilja leikskóla barna þessara for­eldra í ákvörðun Félags­dóms af­hjúpar kennara­for­ystan smásálar­legan hefndar­hug sem henni er ekki sæmandi,“ skrifar Ólafur.

Ef Kennara­sam­bandinu hefði orðið að ósk sinni um að halda áfram verk­föllum í leikskólunum fjórum, þá væri staðan sú að þeir væru einir í verk­föllum, ásamt leikskólanum í Snæ­fells­bæ.

„Þá væru 3% leikskóla­barna að byrja sjöundu viku verk­falla í þeim til­gangi að knýja á um kjara­bætur fyrir alla leikskóla­kennara, grunnskóla­kennara og fram­halds­skóla­kennara landsins.

Hvernig getur for­ystu­fólk kennara horft í augun á for­eldrum og við­semj­endum sínum og haldið því fram að eitt­hvað geti rétt­lætt þessa lítilmót­legu en þó mis­heppnuðu til­raun til að refsa for­eldrunum fyrir að standa með börnum sínum?“ skrifar Ólafur að lokum.