Á núverandi þingi, sem hefst aftur eftir jólafrí þann 22. janúar, hafa 20 stjórnarfrumvörp verið samþykkt og 23 til viðbótar lögð fram.

Á þingmálaskránni voru í heild 178 lagafrumvörp sem skiptust á tólf ráðherra ríkisstjórnarinnar, en þó ekki jafnt. Fjármálaráðherra var til að mynda með 30 frumvörp á sinni könnu en utanríkisráðherra aðeins með eitt. Að meðaltali voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með 17 mál hver, ráðherrar Framsóknar með rúmlega 16, en ráðherrar Vinstri-grænna aðeins rúmlega níu.

Innviðaráðherra hefur lagt fram flest frumvörp, alls níu, og hafa sex þeirra verið samþykkt. Næst kemur fjármálaráðherra með sex frumvörp, þar af fimm sem hafa verið samþykkt, og síðan umhverfisráðherra með fimm frumvörp, þar af eitt samþykkt.

Sjö ráðherrar hafa síðan lagt fram þrjú frumvörp hver en félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur lagt fram tvö. Ekkert frumvarp hefur komið inn á þingið frá utanríkisráðherra en ætla má að stólaskipti utanríkisráðherra og fjármálaráðherra í október hafi haft áhrif á verkefni þeirra beggja.

Til viðbótar við þau 20 stjórnarfrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt á núverandi þingi hafa fjögur nefndarfrumvörp verið samþykkt. Þá bíða tvö nefndarfrumvörp umræðu, þar á meðal frumvarp sem atvinnuveganefnd lagði fram að beiðni umhverfisráðherra um forgangsraforku. Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af Samtökum iðnaðarins.

Þingmannafrumvörpin eru þó langflest, alls 111 talsins, en ekkert þeirra hefur verið samþykkt og aðeins um þriðjungur hefur farið í gegnum fyrstu umræðu. Þingmenn Flokks fólksins eiga langflest mál en þeir hafa lagt fram 50 frumvörp í heildina. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa síðan lagt fram 23 frumvörp og þingmenn Pírata 22.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.