Gjaldþrotaskiptum á EJ eignarhaldsfélagi er lokið en félagið hélt meðal annars utan um Arctic shopping ehf., Geysi shop ehf., Giljastíg ehf. og Mangan ehf.
Um er að ræða eignarhaldsfélag í kringum verslunarekstur Geysis sem varð gjaldþrota í febrúar 2021 eftir að útbreiðsla kórónuveirunnar lék rekstur fyrirtækisins mjög grátt.
Samkvæmt lögbirtingarblaðinu námu lýstar kröfur í búið rúmlega 571 milljón króna en ekkert fékkst greitt upp í kröfurnar við skipti þrotabúsins.
Jóhann Guðlaugsson var einn eigandi að eignarhaldsfélaginu en síðasti ársreikningur félagsins frá árinu 2019 sýndi fram á 240 milljóna króna tap eftir um 64 milljóna króna hagnað árið áður.
Í ársreikningi greinir félagið frá því að kórónuveirufaraldurinn, sem hófst eftir lok reikningsársins, hafi verið að hafa mjög neikvæð áhrif á reksturinn árið 2020.
„Félagið hefur ekki orðið varhluta af verulegri fækkun ferðamanna til Íslands. Félagið á tvö rekstrarfélög sem sérhæfa sig í sölu til erlendra ferðamanna og hafa tekjur félagsins hrunið á árinu 2020. Félagið hefur fækkað starfsmönnum í kjölfar Covid og fengið frystingu á lánum,“ segir í reikningum en ári síðar var félagið úrskurðað gjaldþrota.
Í lok árs 2019 var eigið fé félagsins 349 milljónir króna sem var þó helmingi minna en á árinu á undan.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 1,4 milljarða sem voru að mestu bundnar við eignir í dótturfélögunum sem eru nefnd hér að ofan.
Dótturfélögin voru tekin gjaldþrotaskiptum um sama leyti og eignarhaldsfélagið en skiptum á þeim lauk í desember 2021.
Lýstar kröfur í þrotabú systurfélaganna Arctic Shopping ehf. og Geysir Shops ehf., sem ráku verslanir Geysis, námu annars vegar 724 milljónum í Arctic Shopping og 388 milljónum í Geysi Shops.
Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra fengust 87 milljónir upp í veðkröfur í tilfelli Arctic Shopping og 20 milljónir upp í veðkröfur og sértökukröfur hjá Geysi.
Ekkert fékkst greitt upp í forgangs-, almennar og eftirstæðar kröfur. Stærstu kröfuhafar búsins voru bankastofnanir.
Sex fataverslanir og lundabúðir
Geysir rak sex fataverslanir víðs vegar um landið sem seldu bæði útivistarföt og hversdagsfatnað.
Geysir rak þrjár verslanir á Skólavörðustíg, eina verslun í verslunarmiðstöðinni Kringlunni og aðra verslun í Hafnarstræti á Akureyri.
Einnig rak félagið Fjallraven verslun á Laugavegi. Fyrsta verslun Geysis var síðan opnuð við Geysi í Haukadal árið 2008. Arctic Shopping, systurfélag Geysis, rak einnig ýmsar búðir sem veðjuðu að miklu leyti á ferðaþjónustu og má þar nefna verslanir Lundans, Óðin, Thor og Jólahúsið við Ingólfstorg.
Hótel Geysir keypti allar vörubirgðir úr þrotabúi Geysis í kjölfar gjaldþrotaskiptanna árið 2021.