Gjaldþrota­skiptum á EJ eignar­halds­félagi er lokið en félagið hélt meðal annars utan um Arctic shopping ehf., Geysi shop ehf., Giljastíg ehf. og Mangan ehf.

Um er að ræða eignarhaldsfélag í kringum verslunarekstur Geysis sem varð gjaldþrota í febrúar 2021 eftir að út­breiðsla kórónu­veirunnar lék rekstur fyrir­tækisins mjög grátt.

Sam­kvæmt lög­birtingar­blaðinu námu lýstar kröfur í búið rúm­lega 571 milljón króna en ekkert fékkst greitt upp í kröfurnar við skipti þrota­búsins.

Jóhann Guðlaugs­son var einn eig­andi að eignar­halds­félaginu en síðasti árs­reikningur félagsins frá árinu 2019 sýndi fram á 240 milljóna króna tap eftir um 64 milljóna króna hagnað árið áður.

Í árs­reikningi greinir félagið frá því að kórónu­veirufar­aldurinn, sem hófst eftir lok reikningsársins, hafi verið að hafa mjög neikvæð áhrif á reksturinn árið 2020.

„Félagið hefur ekki orðið var­hluta af veru­legri fækkun ferða­manna til Ís­lands. Félagið á tvö rekstrarfélög sem sér­hæfa sig í sölu til er­lendra ferða­manna og hafa tekjur félagsins hrunið á árinu 2020. Félagið hefur fækkað starfsmönnum í kjölfar Co­vid og fengið frystingu á lánum,“ segir í reikningum en ári síðar var félagið úr­skurðað gjaldþrota.

Í lok árs 2019 var eigið fé félagsins 349 milljónir króna sem var þó helmingi minna en á árinu á undan.

Eignir félagsins voru bók­færðar á 1,4 milljarða sem voru að mestu bundnar við eignir í dóttur­félögunum sem eru nefnd hér að ofan.

Dóttur­félögin voru tekin gjaldþrota­skiptum um sama leyti og eignar­halds­félagið en skiptum á þeim lauk í desember 2021.

Lýstar kröfur í þrota­bú systur­félaganna Arctic Shopping ehf. og Geysir Shops ehf., sem ráku verslanir Geysis, námu annars vegar 724 milljónum í Arctic Shopping og 388 milljónum í Geysi Shops.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá skipta­stjóra fengust 87 milljónir upp í veðkröfur í til­felli Arctic Shopping og 20 milljónir upp í veðkröfur og sértöku­kröfur hjá Geysi.

Ekkert fékkst greitt upp í for­gangs-, al­mennar og eftir­stæðar kröfur. Stærstu kröfu­hafar búsins voru banka­stofnanir.

Sex fata­verslanir og lunda­búðir

Geysir rak sex fata­verslanir víðs vegar um landið sem seldu bæði úti­vistarföt og hvers­dags­fatnað.

Geysir rak þrjár verslanir á Skóla­vörðustíg, eina verslun í verslunar­miðstöðinni Kringlunni og aðra verslun í Hafnar­stræti á Akur­eyri.

Einnig rak félagið Fjallra­ven verslun á Lauga­vegi. Fyrsta verslun Geysis var síðan opnuð við Geysi í Hauka­dal árið 2008. Arctic Shopping, systur­félag Geysis, rak einnig ýmsar búðir sem veðjuðu að miklu leyti á ferðaþjónustu og má þar nefna verslanir Lundans, Óðin, Thor og Jóla­húsið við Ingólfs­torg.

Hótel Geysir keypti allar vöru­birgðir úr þrota­búi Geysis í kjölfar gjaldþrota­skiptanna árið 2021.