Hluta­bréf í málm­leitar­fé­laginu Amaroq hafa hækkað um tæp­lega 1,5% í morgun og stendur gengið í 113,5 krónum en gengið stóð í 99 krónum þegar fé­lagið var skráð á aðal­markað um miðjan septem­ber.

Gengi Amaroq, sem heldur á víð­tækum rann­sóknar- og vinnslu­heimildum á Græn­landi, hefur nú hækkað um 45% á árinu en ekkert fé­lag í Kaup­höllinni hefur hækkað meira á árinu.

Verð á fram­virkum samningum með gull hafa hækkað veru­lega síðustu daga og fór verð á únsu af gulli fór yfir 2.111 dali á mánu­daginn sem er það hæsta í sögunni. Verðið á únsunni stendur í 2,032 dölum um þessar mundir.

Til­rauna­boranir Amaroq í sex bor­holum í Græn­landi skiluðu ný­verið hæsta gull­magni í sögu fé­lagsins en fé­lagið fann meðal annars nýja gull­æð sem er með 256 grömm af gulli í hverju tonni.

Sam­kvæmt því sem Við­skipta­blaðið kemst næst telst þetta gríðar­lega mikið magn af gulli per tonn þrátt fyrir að um sé að ræða neðan­jarðar­námu þar sem gull­styrkurinn er oft hærri en kostnaðurinn við að sækja gullið meiri.

Eldur Ólafs­son, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri Amaroq, sagði í sam­tali við Við­skipta­blaðið í nóvember að fé­lagið vænti þess að byrja sækja gull úr námunni á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Hann gat ekki sagt til um hve­nær fé­lagið muni fram­leiða sína fyrstu únsu af gulli en það verður til­kynnt á næsta ári.