Hlutabréfaverð fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar hækkaði um tæp 3% í viðskiptum dagsins en um er að ræða sjötta viðskiptadaginn í röð sem gengi félagsins hækkar.

Dagslokagengi Sýnar var 30,2 krónur á hlut sem er hæsta dagslokagengi félagsins í tæpa tvo mánuði.

Hlutabréfaverð Sýnar tók væna dýfu eftir neikvæða afkomuviðvörun og ársuppgjör í febrúarmánuði en rekstur félagsins hefur verið nokkuð þungur undanfarið.

EBIT- afkoma félagsins í fyrra, fyrir virðisrýrnun, nam 739 milljónum króna. Til samanburðar nam EBIT 3,5 milljörðum árið 2023. Þess ber þó að geta að í ársreikningi 2023 var bókfærður 2,4 milljarða hagnaður af 3 milljarða króna sölu stofnnets til Ljósleiðarans.

Leiðrétt fyrir hagnaði af sölu stofnnetsins á fjórða ársfjórðungi 2023 var EBIT 1,1 milljarður króna árið 2023.

Fyrir viku síðan var greint frá því að fjárfestingafélagið Skel keypti 25 milljón hluti í Sýn sem jafngildir um 10% hlut í félaginu. Gengið í viðskiptunum var 22,4 krónur á hlut sem var í samræmi við dagslokagengi Sýnar á þeim tíma. Heildarkaupverð var því í kringum 560 milljónir króna.

Sé tekið mið af daglokagengi Sýnar í dag er markaðvirði hlutarins um 755 milljón krónur sem jafngildir um 195 milljón króna hækkun á einni viku.

Gengi Sýnar hefur nú hækkað um rúm 30% á síðastliðnum mánuði en gengið er þó enn um 6% lægra en í ársbyrjun.

Úrvalsvístalan lækkað um 7% á árinu

Hlutabréfaverð fasteignafélaganna Reita og Heima lækkaði um rúm 2% í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi Heima var 35,2 krónur á meðan dagslokagengi Reita var 104 krónur á hlut.

Gengi Haga lækkaði um tæp 2% og fór niður í 100 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði einnig um tæp 2% og fór niður í 1,1 krónu á hlut.

Mesta veltan var með bréf Arion banka sem hækkaði um 1% í 464 milljón króna veltu. Dagslokagengi Arion var 150,5 krónur.

Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði í 0,67% og lokaði í 2.694,32 stigum. Vísitalan hefur nú lækkað um tæp 7% það sem af er ári.

Heildarvelta á markaði nam 2,4 milljörðum.