Hlutabréfaverð Icelandair hefur nú hækkað um tæp 40% síðastliðinn mánuð og var dagslokagengið í dag 1,22 krónur.
Gengi flugfélagsins hækkaði um 2,5% í um 636 milljón króna viðskiptum í dag.
Hlutabréfaverð Play, sem hefur einnig verið að taka við sér á síðustu vikum, lækkaði um 1% í örviðskiptum í dag. Gengi Play hefur þó hækkað um rúm 16% síðastliðinn mánuð.
Gengi flugfélaganna tveggja hefur verið að hækka samhliða lækkandi olíuverði en verðið á tunnunni af Brent-hráolíu hefur lækkað um tæp 15% síðastliðna sex mánuði.
Brent hráolía er meðal annars notuð í flugvélaeldsneyti en framvirkir samningar um Brent tóku þó óvænt við sér að nýju um tvöleytið í dag og hefur verðið á tunnunni hækkað um rúm 4% það sem af er degi.
Hlutabréfaverð fjárfestingafélagsins Skeljungs leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 4% í 289 milljón króna veltu.
Hlutabréfaverð Eikar hélt einnig áfram að hækka og var dagslokagengið 12,5 krónur.
Langisjór ehf., sem á m.a. Ölmu íbúðafélag og fjárfestingarfélagið Brimgarða, gerði á dögunum yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar en tilboðsskylda myndaðist er félagið eignaðist meira en 30% atkvæðisrétt í Eik.
Tilboðsverð Langasjávar er 11 krónur fyrir hvern hlut í Eik.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,43% og var heildarvelta á markaði 8 milljarðar.