Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir ekkert benda til þess að ákvörðun forsætisráðherra Íslands um að leggja fram tillögu um þingrof hafi áhrif á verðbólguna næstu mánuði. Spá greiningardeildar bankans um áframhaldandi hjöðnun stendur óbreytt.
Deildarforseti Háskólans á Bifröst sagðií samtali við Vísi í dag að stjórnarslitin skapi óvissu í efnahagslífinu og erfitt væri að sjá að verðbólga hjaðni í núverandi ástandi.
Spurður um hvort hann telji stjórnarslitin muni hafa þessi áhrif, segir Jón Bjarki ekkert benda til þess. „Í sem stystu máli er ég fullkomlega ósammála þessu,“ segir Jón Bjarki.
„Ég held, og það virðist nokkuð útbreidd skoðun á mörkuðum eins og þróun morgunsins hefur sýnt okkur, að það sé ekkert sérstakt í kortunum, annað en aukin óvissa, sem bendir til þess að þetta ætti að hafa áhrif á efnahagsþróun næstu mánaða,“ segir Jón Bjarki.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hafa verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði verið með kyrrum kjörum þrátt fyrir stjórnarslit og yfirvofandi þingkosningar.
Að mati Jóns Bjarka er eitt að spá í spilin um hvaða áhrif ný ríkisstjórn hafi á hagstjórn til lengri tíma en það breytir þó litlu um stöðuna til skamms tíma.
„Ef við horfum bara á allra næstu mánuði er hjöðnun verðbólgu bara drifin áfram af öðrum kröftum,“ segir Jón Bjarki.
„Það er til dæmis að það er heldur rólegri hækkunartaktur á íbúðamarkaði. Fyrstu áhrif af kjarasamningunum eru komin fram og við höfum séð hagfelldari tölur vera koma fram í launavísitölunni síðustu mánuði sem bendir til þess að launaþrýstingur sé hægt og rólega að verða minni. Krónan hefur verið að styrkjast, verðlag erlendis er að ná jafnvægi og í sem stystu máli breytir þetta ekki skoðun okkar [greiningardeildar Íslandsbanka] að verðbólga verði um 5% í árslok,“ segir Jón Bjarki.
Máli sínu til stuðnings bendir Jón Bjarki á efnahagsþróun í kringum síðustu upphlaup í pólitíkinni og segir að sérstakar stöðutökur í kringum þau hafi trúlega ekki borgað sig.
„Ef við skoðum söguna, þar sem það hefur nú gengið á ýmsu í pólitíkinni undanfarinn einn og hálfan áratug, þá hafa áhrifin á skammtímaefnahagsþróun ekki verið þannig að það hafi borgað sér að taka einhverja sérstaka stöðu þess vegna þegar svona umbrot hafa orðið.“