Ekkert þráðlaust net er í flugvélum Icelandair þrátt fyrir að fyrir einu og hálfu ári hafi verið tilkynnt að uppsetningu slíks nets hafi átt að ljúka nú í haust. Í maí árið 2012 var undirritaður samningur við bandaríska tæknifyrirtækið Row 44 um uppsetningu netsins.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að uppsetning kerfisins hafi tekið lengri tíma en áætlað hafi verið „vegna framleiðslutafa búnaðar og vegna margháttaðrar vottunar sem hefur verið tímafrekari en gert var ráð fyrir“. Guðjón segir að uppsetning búnaðarins sé nú hafin.

„Þráðlaust net verður komið í allan flugflotann á næsta ári. Við munum svo kynna það nánar þegar þar að kemur,“ segir Guðjón.