Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, segir Ísland geta notið góðs af gervigreindarbyltingunni sem nú stendur yfir en til þess þurfum við að halda rétt á spöðunum.

„Gervigreindarkapphlaupið er eitt mesta tæknikapphlaup allra tíma. Þó að það sé vissulega ekki vinsælt orð þá má líkja þessu við nútímavopnakapphlaup. Hvar þjóðir staðsetja sig og hvaða hagsmunagæslu og stefnu þær sýna í þessum málum mun hafa mikil áhrif þegar fram í sækir.“

Hún segir að það sem felist í gervigreindarkapphlaupinu sé að ríki heims keppist við að byggja upp tækni-, gagna- og fjarskiptainnviði og sækja fjárfestingu frá stóru tæknifyrirtækjunum og lykilaðilum sem stýri þróuninni.

„Það er mikið talað um gervigreind í samhengi við það hvernig við nýtum hana í okkar daglegu störfum en þetta er miklu stærra mál, og hefur áhrif á samkeppnishæfni til framtíðar, öryggishagsmuni, geópólitík og margt fleira,“ segir Sigríður.

„Það sem ríki eru að gera, meðal annars hin Norðurlöndin, er að byggja upp innviði gervigreindar, sem eru meðal annars fjarskipta- og gagnatengingar, og sækja fjárfestingu á þessu sviði. Það sem önnur lönd eru líka að gera er að tryggja sér aðgang að nauðsynlegum hátæknibúnaði til að geta tekið þátt í þessari iðnbyltingu og notið góðs af henni efnahagslega.”

Sigríður segir að Samtök iðnaðarins kalli eftir því að Ísland móti sér skýra sýn og stefnu þegar það kemur að þessari byltingu, en það ætti að vera í höndum ríkisstjórnarinnar í nánu samráði við iðnaðinn.

„Það þarf að fylgja þeirri stefnu síðan eftir með markvissum aðgerðum. Það mun skipta sköpum hvaða ákvarðanir við tökum en við höfum strax dregist aftur úr. Því skipta næstu skref miklu máli. Við erum nú þegar búin að missa af fyrstu lestinni því stóru tæknirisarnir eru að staðsetja sig á hinum Norðurlöndunum en hafa ekki enn komið til Íslands með stærri fjárfestingar.“

Spurð hvað veldur því að stóru tæknifyrirtækin horfi fram hjá Íslandi, segir Sigríður að það sé meðal annars vegna stöðu raforkumála.

„Stærsta ástæðan er kannski sú að við höfum ekki verið tilbúin að taka við þessum stóru fjárfestingum. Einn af leiðandi tæknirisunum ákvað á dögunum að ráðast í stóra fjárfestingu í Finnlandi en það voru stjórnvöld þar í landi sem sóttu þá fjárfestingu með markvissum skrefum

Gervigreindarkapphlaupið mun hafa veruleg áhrif á stöðu þjóða í framtíðinni og þar sem byltingin er svo hröð þá getum við lent í því að dragast mjög hratt aftur úr ef við snúum ekki vörn í sókn.“

Spurð um hvort það skipti ekki miklu máli að mæta gervigreindarþróuninni með opnum hug fremur en íþyngjandi regluverki, segir Sigríður það gríðarlega mikilvægt.

„Við hér á Íslandi erum ekki að fara að stjórna því hvort eða hvernig gervigreind verður heft alveg sama hversu strangar reglur við viljum setja. Þróunin verður þá að öllu leyti annars staðar en hér og þessi tækni er landamæralaus. Þess vegna höfum við áhyggjur af regluverki Evrópusambandsins um gervigreind. Evrópusambandið er að vakna upp við það að hafa að einhverju leyti bara ýtt iðnaði, tækniþróun og fjárfestingu í nýsköpun út úr Evrópu með of mikilli regluvæðingu.“

Sigríður segir að þetta megi ekki gerast hér því að mati sérfræðinga er þessi tæknibylting ein sú stærsta í sögunni.

„Heimsmyndin er að breytast mjög mikið og það er ekki síst vegna þessarar þróunar. Við þurfum að huga að virkri hagsmunagæslu bæði gagnvart Evrópusambandinu varðandi regluverkið og vera talsmenn þess að það verði dregið úr regluvæðingu innan sambandsins, sem hefur áhrif á allt evrópska efnahagssvæðið. Á sama tíma verðum við að styrkja okkar tengsl við Bandaríkin, sem eru leiðandi á sviði gervigreindar og búa yfir strategískum tæknibúnaði.“

Sigríður segir að Bandaríkin séu á sinni eigin vegferð og því sé nauðsynlegt fyrir litla þjóð eins og Ísland að meta stöðuna út frá því.

„Mögulega stöndum við frammi fyrir mjög stórri pólitískri ákvörðun, það er hvort við ætlum að halla okkur upp að Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu þegar það kemur að gervigreindarbyltingunni.“ Bandaríkjamenn eru til að mynda byrjaðir að setja á útflutningshömlur á tæknibúnað stórfyrirtækja þar sem þeir telja réttilega að um sé að ræða tækni sem hefur mikla þýðingu út frá öryggis- og varnarhagsmunum. Þetta minnir að sumu leyti á kjarnorkuvopnakapphlaupið og geimkapphlaupið þar sem stórþjóðir lögðu allt undir í tækniþróun og vernduðu tæknina með öllu afli.

„Ísland er ekki komið á lista yfir lönd sem eru undanþegin útflutningshömlum og það er risamál. Við þurfum að róa öllum árum að því að tryggja okkar hagsmuni, aðgengi að mikilvægum tækjabúnaði og sækja fjárfestingu á þessu sviði til Íslands til þess að styrkja okkur á þessu sviði. Í því felast bæði mikil efnahagsleg tækifæri en einnig mun það efla öryggi okkar til framtíðar.“

Spurð um hvort það sé eitthvað því til fyrirstöðu að Ísland njóti góðs af gervigreindarkapphlaupinu ef við höldum rétt á spöðunum, til dæmis í orkumálum, segir Sigríður.

„Það er ekkert því til fyrirstöðu nema viljinn og ég get fullyrt að það yrði gríðarlegur hagur fyrir land og þjóð. Þarna er möguleiki á miklum útflutningstekjum. Við erum nú þegar með öflugan gagnaversiðnað sem er í fremsta flokki. Íslensku gagnaverin eru í viðskiptatengslum og viðskiptaþróun gagnvart stórum aðilum og það er hægt að byggja upp sambandið í gegnum þau og sækja tækifærin þannig.“

Sigríður segir mikilvægt að ríkisstjórnin setji það í forgang að koma fram með skýra og trúverðuga stefnu á þessu sviði því að einhverju leyti sé framtíð landsins í húfi. „Þetta eru ekki bara útflutningstekjur heldur snýr þetta líka að öryggis- og varnarhagsmunum. Hin Norðurlöndin eru komin á fullt og við erum að missa af lestinni,“ segir Sigríður að lokum.