Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir það ekki á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn að gefa út rannsóknarleyfi „eða hvað þá vinnsluleyfi“ fyrir olíu í íslenskri lögsögu.
Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Miðflokksins, í óundirbúningum fyrirspurnartíma á Alþingi 20. febrúar síðastliðinn.
Bæjarráð Fjarðabyggðar beindi því í gær til stjórnvalda að meta að nýju hagkvæmni olíuleitar á Drekasvæðinu. Það vill bæjarráðið að verði gert vegna þess að orkuskipti ganga hægar en gert hafði verið ráð fyrir. Áframhaldandi rannsóknir gætu skilað miklum efnahagslegum ávinningi fyrir Austurland að mati bæjarráðsins.
Þá kalli breytt heimsmynd á endurskoðun fyrri ákvarðana með tilliti til orku- og þjóðaröryggis, sem birtist m.a. í því að Noregur er að auka olíu- og gasvinnslu og horfa til nýrra vinnslusvæða.
„Við getum unnið á umhverfisvænni hátt en flestir aðrir“
Nanna Margrét spurði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í febrúar hvort hann væri tilbúinn að stuðla að því að rannsóknar- og leitarleyfi kolvetna verði gefin út, til að mynda fyrir Drekasvæðið, m.a. í ljósi þeirrar staðreyndar að Ísland gæti mögulega setið á ónýttum auðlindum „sem við getum unnið á umhverfisvænni hátt en flestir aðrir“.
Hún tók þó fram að hún og flestir séu sammála um mikilvægi þess að orkuskipti fari fram og að minnka beri kolabrennslu og jarðefnaeldsneytisnotkun. Staðreyndin sé hins vegar sú að jarðefnaeldsneyti heldur áfram að vera mikilvægt til framtíðar, sérstaklega fyrir þau lönd sem eru háð innflutningi á orku vegna aukins íbúafjölda og efnahagsvaxtar í þróunarlöndum.

Segir stóra verkefnið að fasa út jarðefnaeldsneyti
Jóhann Páll sagði að þau rannsóknar- og leitarleyfi fyrir olíu sem voru gefin út hér á landi ekki hafa skilað þeim árangri sem stefnt var að.
„Stutta svarið er nei, það er ekki áherslumál hjá þessari ríkisstjórn að halda áfram olíuleit. Verkefnið er þvert á móti að halda áfram að fasa út jarðefnaeldsneyti eins og við höfum skuldbundið okkur til að gera, eins og nágrannaþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar stefna að. Þetta er stóra verkefnið.
Ef við ætlum að halda áfram að fasa út jarðefnaeldsneyti þá getum við ekki um leið verið að leita og leita að meiri olíu og vinna og vinna meiri olíu. Þar fer ekki saman hljóð og mynd.“
Nanna Margrét vísaði í kjölfarið í ummæli Jóhanns Páls í viðtali við RÚV þar sem hann sagði ekkert ríki geta verið stikkfrítt í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Hún spurði ráðherrann út í þessi ummæli og hvort hann eigi þá við að Ísland eigi að borga meiri til Evrópu í skatta og loftslagsgjöld, fyrst ekki eigi að taka þátt í að framleiða orkugjafa fyrir fleiri en okkur sjálf á sem umhverfisvænasta hátt.
„Það sem sá sem hér stendur meinar þegar hann talar um að ekkert ríki geti verið stikkfrí í baráttunni við loftslagsvandann er einfaldlega það að Ísland sem eitt ríkasta land í heimi á auðvitað að setja sér háleit markmið þegar kemur að því að draga úr losun,“ svaraði Jóhann Páll.
„Í þessu felst líka að við eigum að halda áfram að nýta okkar endurnýjanlegu orkugjafa, okkar endurnýjanlegu auðlindir. Einmitt þess vegna er þessi ríkisstjórn líka með það á dagskrá að auka orkuöflun og styrkja flutningskerfi raforku. Þetta er mikilvægt upp á orkuskiptin en líka upp á verðmætasköpun almennt og byggðaþróun í landinu en leysir okkur hins vegar ekki undan því líka að setja okkur háleit markmið í loftslagsmálum, þegar kemur að m.a. útfösun jarðefnaeldsneytis, og standa við þau.“