Ríkisendurskoðun birti í byrjun þessa árs samtímis ársskýrslur stofnunarinnar fyrir árin 2022 og 2023. Athygli vekur að nýbirtar ársskýrslur stofnunarinnar eru talsvert styttri en fyrri ársskýrslur hennar.
Meðal hlutverka Ríkisendurskoðunar er eftirlit með skilum ársreikninga kirkjugarða, stjórnmálasamtaka, sjóða og sjálfseignarstofnana, og ríkisaðila.
Á síðasta ári birti Ríkisendurskoðun nokkrar tilkynningar til að mynda um „ófremdarástand í skilum ársreikninga sjóða og sjálfseignarstofnana“, „óviðunandi“ skil á ársreikningum kirkjugarða, og að skilum ársreikninga stjórnmálasamtaka væri „verulega ábótavant“.
Viðskiptablaðið vakti athygli á því í mars 2024 að Ríkisendurskoðun ætti eftir að birta ársskýrslu fyrir árið 2022. Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi rakti á þeim tíma tafir á birtingu ársskýrslunnar til ákveðinna skipulagsbreytinga og tók einnig fram að til stæði að breyta birtingarforminu á ársskýrslunni. Í ljósi þess hvað skilin hefðu hygðist stofnunin birta ársskýrslurnar fyrir árið 2022 og 2023 samtímis.
Óþarfi að endurtaka gamlar upplýsingar
Ársskýrslur Ríkisendurskoðunar undanfarin ár hafa flestar verið í kringum 60 bls. Nýbirt ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2022 er hins vegar aðeins 6 bls. að lengd, sem skýrist að hluta af því að skýrslurnar fyrir 2022 og 2023 voru birtar samtímis.
Guðmundur Björgvin segir í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að samkvæmt lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga gefi ríkisendurskoðandi Alþingi á hverju ári skýrslu um störf sín. Þessi skýrslugjöf fari fram á árlegum fundi með forsætisnefnd þingsins. Enginn brestur hafi orðið þar á, hvorki hvað varðar 2022 eða 2023.
„Skylda ríkisendurskoðanda er skýrslugjöf til Alþingis og varðar ekki tímasetningu birtingar eða útgáfu.“
Hvað varðar lengd og sniðmát ársskýrslunnar, þá segir Guðmundur Björgvin að gerð hafi verið sú breyting ársskýrslur embættisins séu eingöngu birtar á vefsíðu embættisins en ekki í sérstakri pappírsútgáfu.
„Hluti af efninu eru hlekkir á upplýsingar, skýrslur eða gögn sem liggja fyrir á vefsíðu embættisins og óþarfi er að endurtaka. Engar ályktanir ber því að draga af lengd ársskýrslna. Þar sem Ríkisendurskoðun gerir grein fyrir öllum störfum sínum í útgefnum skýrslum, samantektum og/eða fréttum er lítill virðisauki í löngum ársskýrslum.“
Tíminn leitt í ljós að vinnu Ríkisendurskoðunar megi treysta
Í aðfaraorðum Guðmundar Björgvins í ársskýrslu 2023 segir hann m.a. að opinber rekstur hafi aukist að umfangi og flækjustig hans magnast á undanförnum árum „með vaxandi tilhneigingu stjórnvalda til að koma kjarnaverkefnum ríkisins fyrir utan hefðbundna stofnanakerfisins og í félagaformi“.
Þetta hafi skapað mikið álag á Ríkisendurskoðun á meðan starfsemin og umfang hennar hefur ekki lagast sem skyldi að hinum fjölmörgu breytingum sem orðið hafa á ríkisrekstrinum og kröfum um endurskoðun hans, m.a. í kjölfar setningar laga nr. 123/2015 um opinber fjármál (LOF).
„Til að gera embættinu betur kleift að ná utan um hlutverk sitt miðað við núverandi umfang leggur Ríkisendurskoðun ríka áherslu á að ríkisaðilar komi sér upp og sinni sem skyldi innra eftirliti og endurskoðun, til samræmis við kröfur LOF.“
Guðmundur Björgvin segir á árinu 2023 hafi sjónir embættisins haldið héldu sjónir áfram að beinast að úttekt á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem kláraðist á árinu 2022, en einnig hófst á ný umræða um skýrslu embættisins frá 2020 um starfsemi Lindarhvols ehf.
„Umræður um báðar skýrslur var á tíðum gagnrýnin, sem endurspeglar að einhverju leyti þá ólíku hagsmuni sem málin varða. Í báðum tilfellum hefur tíminn þó leitt fram að vinnu Ríkisendurskoðunar má treysta, eins og eðlilegt er að gera ríkar kröfur um.“