Tilnefningarnefnd Festi hyggst ekki leggja til að svo stöddu að starfsreglum nefndarinnar verði breytt í samræmi við ósk Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) um að birt verði nöfn allra hæfra frambjóðenda til stjórnar félagsins, en ekki aðeins þeirra sem eru hluti af uppstillingu nefndarinnar.

Í skýrslu tilnefningarnefndar fyrir aðalfund Festi segist nefndin skynja að ekki sé fullur einhugur meðal hluthafa um þessi mál, auk þess að skýr útfærsla sé ekki lögð til í bréfi lífeyrissjóðsins.

„Því telur nefndin, með hliðsjón af meginreglum um góða stjórnarhætti, ekki rétt að hún leggi nú til breytingar á starfsreglum nefndarinnar hvað þessa þætti varðar. Hins vegar fagnar nefndin því að hluthafar láti sig varða málefni er varða starfshætti tilnefningarnefndar.“

LIVE, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, sendi í desember síðastliðnum bréf til allra skráðra íslenskra félaga sem sjóðurinn er hluthafi í og tilnefningarnefnda þeirra. Í bréfinu er vísað til þess að frambjóðendur sem eru ekki hluti af uppstillingu tilnefningarnefnda kjósi gjarnan að draga framboð sitt til baka.

LIVE hvatti tilnefningarnefndir til að taka verklag sitt hvað varðar upplýsingar um stjórnarframboð til endurskoðunar með það að markmiði að auka gagnsæi og veita hluthöfum betri upplýsingar um aðra frambjóðendur en þá sem eru hluti af tillögum nefndanna.

Þess má geta að Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, kallaði einnig eftir því fyrir tæpu ári að tilnefningarnefndirnar skili hluthöfum rökstuddum opnum umsögnum um alla þá frambjóðendur sem þær telja hæfa, ekki bara um þá frambjóðendur sem tilnefndir eru í stjórnir umræddra félaga.

Tilnefningarnefnd Festi varð við þeirri áskorun að taka erindi LIVE til skoðunar og ræddi efni bréfsins við fulltrúa lífeyrissjóðsins og annarra hluthafa sem funduðu með nefndinni. Af þeim samtölum að dæma er ekki fullur einhugur meðal hluthafa Festi um þessi mál.

Nefndin minnist í skýrslunni einnig á að á málþingi Landssamtaka lífeyrissjóða sem haldið var í lok janúar hafi málefnið komið til umfjöllunar „en á fundinum mátti skynja aðeins ólíkar áherslur ólíkra hluthafahópa í þessum efnum“.

Þess má geta að Óskar Magnússon, stjórnarformaður Eimskips, sagði á umræddu málþingi að sér þætti þessi tillaga LIVE ekki nægilega merkileg til að eyða orku í hana.

Hvað tilnefningarnefnd Festi varðar sérstaklega er bent á í skýrslunni að starf hennar sé markað af ákvæðum starfsreglna nefndarinnar sem kveða m.a. á um að nefndin skuli gæta trúnaðar um allar tilnefningar og framboð sem henni berast og gefa frambjóðendum sem nefndin hefur lagt mat á og eru ekki hluti af tillögu nefndarinnar kost á að draga framboð sitt til baka eftir að niðurstaða liggur fyrir.

„Dragi frambjóðandi framboð sitt ekki til baka skal nefndin koma framboðinu á framfæri við stjórn félagsins. Þannig er það ekki undir nefndinni einni komið að verða við þeim áskorunum sem fram koma í bréfi lífeyrissjóðsins, nema að fengnu samþykki frambjóðenda um að geta um áhuga þeirra á að starfa í stjórn félagsins og málsmeðferð nefndarinnar hvað þá varðar.“

Það kom einnig til umræðu bæði innan nefndarinnar og við þá hluthafa sem rætt var við hvort nefndin ætti að ræða nöfn einstakra frambjóðenda við hluthafa sem nefndin ræðir við áður en tillögur hennar eru lagðar fram.

„Í störfum nefndarinnar hefur þessi háttur ekki verið iðkaður, en þetta þekkist í framkvæmd hjá nefndum einhverra félaga skv. samtölum við hluthafa.“

Nefndin fagnar því í skýrslunni að umræða um fyrirkomulag á störfum nefndarinnar eigi sér stað og vonast til þess að hún leiði til jákvæðrar þróunar starfsumhverfis tilnefningarnefnda næstu misseri.