Heimsmarkaðsverð á gulli hefur náð sögulegum hæðum á þessu ári en ólga innan alþjóðahagkerfisins ásamt tollastríði og venjulegum stríðum hafa gert þessa glansandi vöru að aðlaðandi fjárfestingu.
Seðlabankar um allan heim, fjárfestar og vogunarsjóðir eltast nú við að eignast hlut í þessum sjaldgæfa forða sem hefur hækkað um 136% í verðmæti undanfarinn áratug.
Þessi mikla eftirspurn hefur hins vegar kynnt undir átökum í þeim löndum þar sem gull finnst. BBC fjallaði nýlega um Sahel-svæðið í Vestur-Afríku en þar er gull mikilvæg líflína fyrir herforingjastjórnir í Búrkína Fasó, Malí og Níger.
Samkvæmt Alþjóðagullráðinu framleiða þessi þrjú ríki um 230 tonn af gulli á hverju ári, eða um 15 milljarða dala virði af gulli miðað við núverandi markaðsgengi. Svæðið glímir hins vegar við mörg vandamál sökum skæruliðahreyfinga, einangrunar og eyðileggingar vegna loftslagsbreytinga.

Beverly Ochieng, yfirmaður rannsóknarsviðs hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Control Risks, segir að herstjórnir þessara landa vilji nú njóta góðs af háu verðlagi á gulli. Ríkisstjórnirnar segja sjálfar að ágóðinn gæti aukið fullveldi ríkjanna og komið íbúum landanna til góðs.
Rússnesk fyrirtæki hafa hins vegar verið að auka hlut sinn á svæðinu og má þar nefna rússnesku samsteypuna Yadran Group, sem í síðasta mánuði fékk leyfi frá herforingjastjórn Assimi Goita til að byggja gullhreinsunarstöð í Malí.
Búrkína Fasó vinnur einnig að því að byggja sína fyrstu gullhreinsunarstöð og hefur jafnframt stofnað ríkisrekið námufyrirtæki. Stjórnvöld krefjast nú að erlendir aðilar veiti því fyrirtæki 15% hlut í starfsemi sinni í landinu.
Ibrahim Traoré, forseti herforingjastjórnar Búrkína Fasó, notast nú einnig við falskar auglýsingaherferðir með notkun gervigreindar til að fagna því hversu vel honum hefur gengið að tryggja svo mikilvæga tekjulind fyrir þjóð sína.
Gullið fer beint í herinn
Að sögn sérfræðinga snýst fjármögnunin hins vegar um aukin útgjöld til hermanna og málaliða til að berjast gegn uppreisnarhópum í löndunum. Gagnsæi á opinberum útgjöldum í þessum löndum er lítið sem ekkert til að byrja með en talið er að stór hluti fjármála renni beint í herinn.

Herútgjöld í Malí hafa til að mynda þrefaldast síðan 2010 og námu herútgjöld 22% af heildarfjárlögum þjóðarinnar árið 2020. Stór hluti af þeim fjármunum hefur runnið til rússneskra málaliða, þar á meðal Wagner-hópsins og arftaka þess, Africa Corps.
Sá hópur hefur tekið þátt í herþjálfun í Búrkína Fasó en ríkisstjórnirnar berjast allar gegn skæruliðahreyfingum sem tengjast al-Kaída og Íslamska ríkinu.
Alex Vines, hjá hugveitunni Chatham House í London, segir að mjög lítið af tekjum frá gulli í þessum löndum renni beint til almennra borgara. Stór hluti af gullnámuvinnslu Sahel-svæðisins fer fram undir eftirliti skæruliðahópa sem keppast allir um yfirráð á litlum námusvæðum.
Sameinuðu þjóðirnar áætla svo að megnið af þessu gulli endi beint í gullhreinsun í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Gullið hefur reynst mikilvæg tekjulind fyrir herforingjastjórnir Sahel-svæðisins og hefur jafnframt aukið pólitísk áhrif þessara ríkja. Hækkun gullverðs á heimsvísu mun þó líklega koma til með að auka átökin á þessu svæði, án þess að vinnumenn gullnámanna taki eftir einhverjum launahækkunum.