Björgvin Jón Bjarnason, fyrrum framkvæmdastjóri á innanlandsmarkaði Samskipa, skrifaði skoðanapistil sem birtist á vef Vísi í morgun þar sem hann segir Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, fara með rangt mál.
Hann vísar til þess að Ragnar Þór hafi dregið nafn sitt í umræður um samráðsmál Samskipa og spyr hvort sannleikurinn skipti Ragnari einhverju máli.
Ragnar sagði að Björgvin hafi verið lykilstjórnandi hjá Samskipum þegar meint brot áttu sér stað og var því meðal annars deilt hjá bæði Vísi og Morgunblaðinu. Björgvin segist hins vegar hafa verið hættur störfum hjá Samskipum um 12-18 mánuðum áður en meint brot voru framin. Hann hafi þá stýrt innanlandssviði Samskipa í 17 mánuði, frá maí 2005 til janúar 2007.
„Ég get því ekki undir nokkrum kringumstæðum átt aðild að þeim málum, né var mér kunnugt um þau. Í þeim störfum sem ég hef sinnt síðan hef ég hins vegar staðið í nokkrum kaupum á flutningi, þannig að ég hef þá borið tjón af hinu meinta samráði,“ skrifar Björgvin í pistli sínum.
Björgvin bætir við að SKE hafi verið með málið til rannsóknar í heilan áratug og að á þeim tíma hafi hann aldrei fengið fundarboð né fyrirspurnir frá SKE.
„Kjarni máls er sá að ég er á engan veginn sekur um þau afbrot sem Ragnar Þór ætlar mér. Það er þó ekki hægt að láta smáatriði eins og eitt mannorðsmorð trufla sig ef sagan er góð.“