Jómfrúarflug hins akureyska flugfélags Niceair er í dag, þegar að vélin Súlur leggur til Kaupmannahafnar. Flugfélagið mun fljúga til London, Kaupmannahafnar og Tenerife til að byrja með, uppselt er í fyrsta flugið og sumarið er það meira og minna líka.
„Mikil eftirvænting er á svæðinu að fá fleiri ferðamenn til norðurlands, en uppistaðan af traffíkinni í sumar verður heimafólk á leiðinni út og svo Íslendingar erlendis sem eru að koma heim,” segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Niceair. Hann segir að í október bætist Manchester við sem nýr áfangastaður, og sennilegt næsta skref verði flug til Þýskaland fyrir sumarið 2023. Hann leggur þó megináherslu á það að Niceair fer varlega af stað, það skipti höfuðmáli að fylla vélarnar.
„Tilkoma félagsins er mikil breyting fyrir íbúa Norður- og Austurlands sem hafa hingað til þurft að eyða heilu frídögunum í að ferðast milli landshluta. Íbúar Austurlands þurfa að keyra hátt í níu tíma til að komast til Keflavíkur, en ferðatíminn er nær þremur tímum til Akureyrar.”
Þorvaldur Lúðvík segir að til viðbótar við íslensku eftirspurnina horfi félagið fyrst og fremst til Bretlands enda hafi breskir ferðamenn verið áberandi á Íslandi um langa hríð.
„Vetrar- og norðurljósaferðir frá Bretlandi til Norður Íslands eru þekkt vara en ferðaskrifstofan SuperBreak keyrði á þessar ferðir fyrir nokkrum árum þegar flogið var frá Bretlandi beint norður frá október og fram í apríl.”
Að sögn Þorvaldar Lúðvíks fer flugfélagið fetið í allri yfirbyggingu.
„Það er fámennur hópur sem stendur að uppbyggingu félagsins sem hefur verið alveg á kafi undanfarna mánuði. Ein flugvél verður notuð til að byrja með, sem nýtast mun á alla áfangastaði. Flugfélagið er svokallað „virtual airline“,sem felst í því að öll viðskiptaleg umsjón er í höndum Niceair en flugtæknilegi hlutinn og flugrekstrarleyfið er í höndum annarra, þannig er hægt að fara varlega af stað og nýta stærðarhagkvæmni annarsstaðar frá. Þetta er þekkt rekstrarmódel sem er mikið notað í sprotastarfsemi.”
Spurður um samkeppnisumhverfið segist Þorvaldur Lúðvík ekki endilega líta á Play og Icelandair sem samkeppnisaðila, öllu heldur sé Niceair að stækka markaðinn og breikka viðskiptamannahópinn fyrir þá sem vilja heimsækja Ísland.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.