Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að allir mælikvarðar séu farnir að benda í rétta átt þegar kemur að kólnun hagkerfisins og minni eftirspurnar í hagkerfinu. Nefndin hafi því talið rétt að ráðast í varfærið skref með 0,25 prósenta lækkun á stýrivöxtum, úr 9,25% í 9,0%.
„Ef hlutirnir fara á móti okkur, þá náttúrulega mun þetta ferli stöðvast. Stýrivextir eru núna 9,0% sem eru mjög háir stýrivextir,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi Seðlabankans í morgun.
„Það er alveg greinileg kólnunarmerki. Auðvitað yrði það mjög heppilegt ef það væri hægt að ná einhverri farsælli lendingu í þessu, að þetta muni leggjast með okkur.“
Mikið aðhald gefi nefndinni svigrúm
Hann sagði að nánast allar efnahagsstærðir nema kannski kreditkortavelta heimila erlendis gefi vísbendingar um kólnun hagkerfisins. „Allir aðrir mælikvarðar sem hafa komið fram eru að benda til þess að þetta er að þróast í rétta átt.“
Ásgeir sagðist gera ráð fyrir að raunvaxtaaðhaldið muni heldur vaxa ef við miðað er við tólf mánaða verðbólgu og því hafi nefndin talið tækifæri til að lækka vexti. Þetta mikla aðhald veiti nefndinni svigrúm til að bregðast við ef hlutirnir þróast ekki eins og hún vonast eftir.
„En auðvitað eru þetta vandræði. Það eru vandræði við það að reka peningastefnu í þessu landi hvað verðbólguvæntingar eru háar og það einhvern veginn eins og launahækkanir fara hratt út í kerfið sem dæmi. Núna er þá vonandi það að þetta sé að ganga okkur í hag.“
Stór skref, smá skref
Ásgeir var spurður út í nálgun nefndarinnar að stíga varfærið skref en hann hafði áður gefið til kynna að nefndin myndi taka stærra skref við upphaf vaxtalækkunarferlisins. Ásgeir svaraði því að nálgunin velti að einhverju leyti á hversu mikið traust nefndin hafi á þróun undirliggjandi efnahagsstærða.
„Ein leiðin væri sú að halda öllu óbreyttu og láta raunvaxtastigið hækka og byrja ekki að lækka fyrr en það væru komin ótrúleg merki um að það væri komin veruleg niðursveifla. Sú strategía er mögulega áhættuminni frá sjónarhóli verðbólgunnar.
Hin leiðin sem nefndin hefur ákveðið að fara er að byrja í smáum skrefum og sjá hvort að þróunin verði ekki með okkur. Það er kannski ekki svo mikil áhætta því að ef þróunin fer á móti okkur þá auðvitað mun nefndin bregðast við því […] Stór skref, smá skref. Þetta er bara allt hvernig nefndin metur stöðuna á hverjum tíma.“
Rannveig horfði mest á könnun meðal 400 stærstu
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, ítrekaði ap peningastefnunefndin hafi verið að stíga varfærið skref „og það er alls ekki gefið að það verði vaxtalækkun á næsta fundi“.
„Það fer algjörlega eftir því hvað gerist á milli funda. Við erum ekki komin á einhvern sleða sem fer húrrandi hratt niður Esjuna þó við tökum núna fyrsta skrefið, bara þannig að það sé alveg skýrt. Þetta er svolítið spurningin hvort við eigum að bíða og sjá [næstu hagtölur] enn eina ferðina eða eigum við að taka þetta skref.
Rannveig sagði að nefndin tók undir með Ásgeiri að merki væru um að það væri byrjað að hægja á hagkerfinu. Hins vegar hafi sú þróun einkennst að ákveðnu leyti af hænuskrefum.
„Ég held að það sé mismunandi hvað nefndarmenn horfðu mest í. Ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá fannst mér niðurstöðurnar úr könnuninni meðal 400 stærstu í Gallup, hún sýnir svona að flestar stærðir sem skipta máli þar eru svona að komast í jafnvægi.“
Hækkun verðtryggðra útlánavaxta skipti Ásgeir mestu máli
Bæði Ásgeir og Rannveig nefndu það nokkrum sinnum að nefndarmenn peningastefnunefndar hafi gefið hagstærðum mismikið vægi í sinni nálgun til peningastefnunnar og stöðu hagkerfisins. Ásgeiri sagði að fyrir sitt leyti hefði hækkun verðtryggðra útlánavaxta verið sá þáttur sem hann taldi hafa mestu þýðinguna undanfarið
„Fyrir mér hefur það mjög mikla þýðingu vegna þess að stór hluti af verðbólgunni sem núna er til staðar er vegna hækkunar á fasteignaverði. Að það skuli koma svona mjög öflug leiðni inn í verðtryggð útlán leiðir til þess að það hlýtur að hafa töluverð áhrif á fasteignamarkaðinn.
Þannig að við erum að sjá miklu sterkari leiðni í þann þátt sem hefur verið að valda mestri verðbólgu núna undanfarið, sem er fasteignamarkaðurinn.“
Ásgeir ítrekaði að fasteignamarkaðurinn birtist í verðbólgumælingum. Annars vegar sé það byggingargeirinn.
„Þrátt fyrir umræðu um að sá geiri sé að horast niður og deyja þá er hann að fitna og vaxa eins og aldrei áður. Sá geiri er að reka áfram vinnuaflseftirspurn. Þetta er sá geiri sem vantar fólk. Ég held að það sé einn þáttur.“