Landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir er í ítarlegu viðtali í Áramótum, nýútkomnu tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Talið berst að íslenska landsliðinu. „Næstum því“ lýsir síðustu mánuðum hjá landsliðinu einkar vel. Á Evrópumótinu síðasta sumar gerði liðið jafntefli í öllum leikjum riðlakeppninnar og rétt missti af sæti í 8-liða úrslitum keppninnar. Á haustmánuðum mistókst liðinu svo að tryggja sér sæti á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar, eftir tap gegn Hollendingum í síðasta leik undankeppninnar. Liðið fékk þó annað tækifæri til að tryggja sér sæti á HM í gegnum umspil. Svekkjandi tap gegn Portúgal, þar sem dómari leiksins gerði íslenska landsliðinu enga greiða, gerði þó endanlega út um HM-drauminn.

„Ég er ekki enn komin yfir það að við séum ekki að fara á HM og er ekki viss um að ég muni komast að fullu yfir það fyrr en mótinu er lokið. Við verðum þó bara að segja hlutina eins og þeir eru. Ef við hefðum unnið þá leiki á EM sem við áttum að vinna, þá hefðum við komist áfram upp úr riðlinum. Við vorum einfaldlega ekki nógu góðar í fyrstu tveimur leikjunum og það kostaði okkur sæti í 8-liða úrslitum.

Ef við horfum yfir Hollands-leikinn í heild sinni vorum við mjög ólíkar okkur sjálfum í fyrri hálfleik, vörðumst illa og vorum heppnar að fá ekki á okkur mark eða mörk þá. Í seinni hálfleik snerist leikurinn hins vegar við og mér fannst við spila vel. Við vorum sterkar varnarlega og þeim tókst ekki að skapa sér nein færi. Við fengum aftur á móti frábært færi til að komast yfir eftir gott spil. Við endum þó á að fá á okkur óheppilegt mark á 94. mínútu. Þetta var gríðarlega svekkjandi en kannski hægt að segja að það hefði verið smá heppnisstimpill yfir því ef við hefðum sloppið frá leiknum með jafntefli, vegna þess hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist. Það hefði þó ekki skipt neinu máli því við hefðum þá verið á leiðinni á HM og umræðan um liðið þróast á allt annan hátt, þó svo að frammistaðan hefði verið sú sama.“ Umspilsleikurinn gegn Portúgal hafi svo markast verulega af slæmri frammistöðu dómarans.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði