Már Wolfgang Mixa, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir heimskreppu líklegri ef aðrar þjóðir en Bandaríkin verði sein að mynda ný viðskiptasambönd, ef það gerist fljótt séu líkurnar minni.
„Slíkt myndi einangra Bandaríkin og auka líkurnar á kreppu þar,“ segir Már og bætir við að miðað við væntingarvísitöluna þá megi búast við mikilli kreppu í Bandaríkjunum. Hann skrifar einmitt um þetta í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag: „Samkvæmt væntingarvísitölu háskólans í Michigan féllu væntingar neytenda um tæp 9% milli mars og apríl, og hafa samtals dregist saman um 32% frá því í janúar, sem endurspeglar snarversnandi trú almennings á eigin efnahag.“
„Þetta er mesta lækkun væntinga á þremur mánuðum síðan kreppan 1990 reið yfir og hefur hún aðeins tvisvar sinnum verið lægri síðan mælingar hófust fyrir tæpum 50 árum síðan. Mest varð samdrátturinn hjá millistéttinni. Því er hægt að áætla að neysla sé að dragast meira saman en opinber gögn segja enn til um.
Sé þetta að raungerast geta ruðningsáhrifin verið miklu meiri en tollastríðið sjálft. Lækkandi væntingar hafa í gegnum tíðina oft verið undanfari kreppu.“
Már segir að tvær breytur geti hugsanlega haft áhrif á þessa þróun.
„Stýrivextir gætu lækkað hraðar en nú er búist við. Slíkt er þó vandséð í Bandaríkjunum þegar að verðbólguvæntingar eru að aukast, ekki að hjaðna. Hin breytan er svo einfaldlega að Trump nái einhverjum samningum eða gefi eftir og einbeiti sér að einhverju öðru.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.