Samfélagsmiðillinn X, áður Twitter, hefur fjarlægt eiginleika sem gerir notendum kleift að tilkynna rangar upplýsingar um kosningar. Það voru ástralskir sérfræðingar sem bentu á þessa breytingu þar sem kosningar eru á næsta leyti þar í landi.

Eiginleikinn hefur hins vegar ekki verið fjarlægður fyrir notendur innan Evrópusambandsins.

Ákvörðun X um að fjarlægja eiginleikann hefur ýtt undir áhyggjur í aðdraganda mikilvægrar þjóðaratkvæðagreiðslu í Ástralíu um aukin réttindi frumbyggja sem og komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári.

Áströlsk yfirvöld segja að útbreiðsla rangra upplýsinga í kringum þessar kosningar sé þær útbreiddustu sem sést hafa í sögu landsins. Þjóðaratkvæðagreiðslan, sem verður haldin 14. október, er sú fyrsta sinnar tegundar sem haldin er í Ástralíu í aldarfjórðung.

„Nú virðist vera engin leið til að tilkynna rangar upplýsingar um kosningar þegar þær uppgötvast á samfélagsmiðlinum“, segir rannsóknarfyrirtækið Reset.Tech Australia í bréfi til X.

Notendur geta hins vegar tilkynnt færslur sem þeir telja hatursfullar, móðgandi eða vera ruslpóst.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsakaði nýlega yfir 6.000 færslur á Facebook, Instagram, Linkedin, Tik Tok, X og YouTube og komst að því að X væri með hæsta hlutfall rangra upplýsinga. Samkvæmt rannsókninni var YouTube með minnsta hlutfall.

Innan ESB þurfa tæknirisarnir að fara eftir ströngum lögum um stafræna þjónustu en þau eru hönnuð til að vernda notendur og stöðva kosningaafskipti.