Greining Stefnis á kaupréttarsamningum stjórnenda í Kauphöllinni hérlendis bendir til þess að samningarnir séu nokkuð staðlaðir og virðast eiga rætur sínar að rekja til ráðgjafarfyrirtækja.

Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, kallar eftir því að stjórnir skráðra félaga hugi betur að því hvernig kaupréttarkerfin séu byggð upp. Kaupréttur er að hans mati langt frá því að vera eina leiðin til að umbuna stjórnendum fyrir vel unnin störf.

Frá 2021 hefur notkun kaupréttar aukist verulega hjá félögum í kauphöllinni. Um helmingur útistandandi kaupréttarsamninga er hins vegar verðlaus eða „out of the money“. Þróun hlutabréfaverðs í kauphöllinni síðustu mánuði hefur ekki hjálpað til í þessum efnum.

„Mér er ekki ljóst hvort notkun kaupréttar sé í raun besta verkfærið. Sannarlega viljum við umbuna fyrir vel unnin störf. Ef einhver er að ná frábærum árangri er eðlilegt að vilja halda besta fólkinu með því að umbuna því með skynsömum hvötum, hvort sem þeir eru fjárhagslegir eða ekki,“ segir Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis.

Jón bendir á að sé litið til hreyfinga á mörkuðum undanfarnar vikur megi sjá fyrirtæki sem eru með verulega sterka stöðu á íslenskum markaði verða fyrir barðinu á miklum lækkunum á hlutabréfaverði.

„Taka mætti dæmi um að ef Landsvirkjun væri í Kauphöllinni hefði virði félagsins líklega lækkað eins og virði annarra félaga síðustu daga. En staða rekstrar Landsvirkjunar er þó enn á mjög góðum stað – ekkert hefur breyst í rekstri félagsins.“

Jón segir að greiningarvinna Stefnis á kauprétti hérlendis sýni að Norðurlöndin séu að nota í auknum mæli aðrar leiðir til þess að umbuna en kaupréttarfyrirkomulag eitt og sér.

„Því er eðlilegt að skoða aðrar leiðir eins og árangurstengda hlutabréfaúthlutun, sem kallað er á ensku Performance Share Plan, og aðrar kaupaukagreiðslur fyrir að ná árangri í rekstri byggt á fjölbreyttum lykilmælikvörðum þar með talið á sviði sjálfbærni og stjórnarhátta.“

„Lækkanir á mörkuðum síðustu daga sýna okkur líka hversu mikil áhrif alls kyns utanaðkomandi atburðir geta haft á hlutabréfaverð. Starfsfólk getur verið að standa sig rosalega vel en vegna hreyfinga á mörkuðum, sem eru víðs fjarri rekstri félagsins, þá er öllum refsað.“

Hér má einnig hafa í huga að oft eru stjórnendur skuldbundnir til að halda hlutabréfum í kaupréttarkerfum í ákveðinn tíma.

„Þannig má alveg spyrja sig hvort það sé besta leiðin til að umbuna fyrir vel unnin störf að starfsmaður sé settur í þá stöðu að jafnvel stór hluti af sparnaði viðkomandi sé þá bundinn í fjárfestingu, mögulega þvert á áhættuvilja viðkomandi starfsmanns.“

Spurður um hvort það ætti fremur að umbuna stjórnendum þess með hærri bónusgreiðslum fremur en hlutabréfum, segir Jón að það sé einn möguleiki.

„Svarið við spurningunni fer eftir því hvernig er unnið til slíkra kaupaukagreiðslna. Að starfsfólk nái mælanlegum árangri þarf ekki endilega að vera mælt í tekjuaukningu hjá viðkomandi fyrirtæki. Það mætti til dæmis horfa á aðra hluti líka eins og auka skilvirkni sem dregur úr kostnaði án þess að dregið sé úr þjónustu. Fyrir varanlegan árangur í þeim efnum ætti að vera hægt að umbuna með kaupaukagreiðslu án þess að farin væri sú leið að gefa út kauprétt.“

Jón segir mikilvægt fyrir stjórnir skráðra félaga að huga vel að því hvernig kaupréttarkerfi við stjórnendur félaga eru uppbyggð, en svo virðist sem nokkurrar einsleitni gæti hérlendis óháð því í hvaða rekstri viðkomandi félag er í.

„Það er mikil samsvörun á milli allra félaganna í kauphöllinni sem eru með kaupréttarfyrirkomulag. Svo virðist sem stjórnir félaganna fái nokkuð svipaða ráðgjöf hérlendis óháð því hver starfsemi félagsins er eða skortur er á þori til þess að fara nýjar leiðir.“

„Það gæti verið meira samræmi á milli umbunarkerfis og starfsemi viðkomandi félags. Keimlík kaupréttarkerfi milli félaga í ólíkri starfsemi eru svolítið undarleg. Það má ekki loka á þá hugsun að staðlað kaupréttarfyrirkomulag sé ekki endilega eina leiðin. Bæði séð frá hluthöfum og ekki síst séð frá starfsmönnum. En það er vissulega flóknara að ráðast í þá vinnu,“ segir Jón.

Hann segir þó að heilt yfir séu kaupréttarkerfi til góðs, sérstaklega fyrir alla starfsmenn og nefnir þar Festi hf. sem gott dæmi.

„Það er auðvitað frábært að starfsfólk í verslunum eins og Elko eða Krónunni geti fengið tækifæri til að hugsa sem eigendur, en fjárhæðir í slíku kerfi eru hóflegar. Kerfi sem nær til allra starfsmanna er einnig vel til þess fallið að auka fjármálalæsi. Segja má að önnur lögmál gildi um kaupréttaráætlanir stjórnenda, sem þarf að skoða í víðara samhengi,“ segir Jón að lokum.

Áskrifendur geta lesið ítarlega umfjöllun Viðskiptablaðsins um kauprétt hér.