Hagar gengu í október frá samkomulagi við eigendur SMS um kaup á öllu hlutafé færeyska verslunarfélagsins og var endanlegur kaupsamningur undirritaður í lok nóvember.
SMS rekur átta Bónus verslanir, fjórar smærri verslanir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan, og stórverslunina Miklagarður í Þórshöfn. Færeyska félagið rekur einnig stærstu verslunarmiðstöð Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðvar. Að auki á félagið stórt fasteignasafn sem telur um 11.000 fermetra. Ríflega 700 manns starfa hjá SMS og dótturfélögum.
Spurður hvernig viðskiptin komu til, segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, að smásölufyrirtækið hafi átt í ýmsum samtölum eftir stefnubreytingu sem kynnt var í vor. Samtalið um SMS í kjölfarið hafi gengið vel og tímasetningar verið heppilegar.
„Í þessu samhengi er ljóst að við höfum ekkert sérstaklega mörg augljós tækifæri til þess að stækka hérlendis innan okkar kjarnastarfsemi. Aðkoma okkar að SMS er því einfaldlega skemmtilegt og mjög áhugavert stækkunartækifæri í grein sem við teljum okkur þekkja vel og geta orðið að gagni við að efla frekar rekstur SMS í Færeyjum.“
Finnur segir færeyska félagið almennt vel rekið sem endurspegli m.a. áhuga Haga. Nokkur augljós tækifærum til hagræðis og sóknar felast í að slá félögunum tveimur saman sem unnið verði að á næstu mánuðum.
Með sameiningu sé m.a. hægt að ná fram hagræði í innkaupum í krafti stærðar og bjóða upp á fjölbreyttara vöruframboð, sérstaklega í tilfelli SMS. Í þeim efnum séu Hagar að horfa til þróunar síðustu ára hér á landi, m.a. í tengslum við vöruframboð á tilbúnum réttum til eldunar og öðrum tímasparandi leiðum sem hafi verið vel tekið.
„Okkur þykir líka einsýnt að þessar lausnir eiga erindi við vini okkar í Færeyjum einnig og það verður gaman að prófa þetta þar.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um kaup Haga á SMS í Viðskiptablaði vikunnar.