Seðlabankinn vonast til að búið verði að koma á koppinn innviði fyrir greiðslubeiðnir undir fullu forræði bankans fyrir jól, ef tímaáætlanir bankans ganga eftir. Þetta kom fram á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun.

Seðlabankinn leiðir vinnu við innleiðingu miðlægs innviðar fyrir greiðslubeiðnir, sem byggist á greiðslum milli bankareikninga. Innviðurinn verður undir fullu forræði Seðlabankans og hýstur innanlands.

Í ritinu Greiðslumiðlun, sem bankinn gaf út í morgun, er ekki tilgreint hver áætlaður kostnaður verkefnisins er. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, spurði út í kostnaðinn á téðum kynningarfundi.

Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sagði kostnaðinn hafa verið metinn og hann sé hluti af heildstæðu mati Seðlabankans um hvort það væri skynsamlegt að fara í þetta verkefni.

„Kostnaðurinn er að okkar mati hóflegur í samræmi við það sem við áætluðum og er alls ekki fyrirstaða í það að fara í verkefnið,“ sagði Tómas. „[Kostnaðurinn] er að engum hætti jafnmikill og sumir vilja láta vera.“

Oft talað um jarðsögulegan tíma

Ásgeir sagði að „þetta er í sjálfu sér ekki neinn þannig kostnaður til að tala um í þessu stóra samhengi. Í rauninni hefur þetta gengið bara tiltölulega fljótt fyrir sig“.

„Þegar það er verið að tala um greiðslumiðlun þá er alltof oft verið að tala um jarðsögulegan tíma. Ég held að við höfum farið hraðar en það. Það eru náttúrulega miklar áskoranir varðandi öryggi sem við höfum þurft að bregðast við. Vonandi fyrir jól getum við verið með þetta á hreinu.“

Ásgeir sagði það skipta máli fyrir bankann að ferlið sé gagnsætt og því hafi verið ákveðið að bjóða verkefnið út. Útboð taki tíma en stuðli að lægri kostnaði.

Hann lagði einnig áherslu á að Seðlabankann hafi verið í samstarfi við viðskiptabankana um að reyna að minnka kostnað og auka hagkvæmni í greiðslumiðlun. Þess vegna hafi Seðlabankinn skoðað mögulega notkun á TARGET-þjónustunum T2 og TIPS sem eru í eigu Evrukerfisins (e. Eurosystem).

Vonast til að lausnin verði komin í notkun að ári liðnu

Seðlabankinn segir markmið innleiðingar innviðar fyrir greiðslubeiðnir vera að efla viðnámsþrótt innlendrar greiðslumiðlunar auk þess að auka aðgengi að innlendri greiðslumiðlun og styðja við samkeppni og nýsköpun á því sviði.

Í ritinu Greiðslumiðlun segir að með innviðinum verði hægt að framkvæma millifærslur með einföldum hætti í verslunum í gegnum smáforrit markaðsaðila í síma.

Glæra úr kynningu Tómasar.

Í nóvember 2024 auglýsti bankinn eftir tillögum að útfærslu fyrir innviðinn og kostnaðarmati frá hæfum ytri aðilum. Seðlabankanum bárust átta tillögur um útfærslu og kostnað. Í byrjun apríl vísaði framtíðarvettvangur fyrir nýsköpun og stefnumótun fjármálainnviða verkefninu til Seðlabankans og vinnur bankinn nú að frekari útfærslu og innleiðingu.

„Varðandi tímalínuna þá höfum við farið í frumskoðun á því hvort þetta sé tæknilega mögulegt, hvort það séu til aðilar sem geta hannað svona lausn. Við höfum lokið við það og nú er verið að vinna í næsta skrefi, hvernig velur maður aðilann sem hannar kerfið. Það vonandi klárast í sumar,“ sagði Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á fundinum.

„Ef allt gengur að vonum þá verður innviðurinn sem slíkur, eigum við að segja fyrir jól á þessu ári. Síðan gæti tekið einhvern tímann fyrir einkaaðilann að smíða ofan á innviðinn lausnirnar í öppunum sínum, sem við vonumst að gerist samhliða en allavega fljótlega eftir að þetta verði komið á koppinn. Svo vonandi mun útbreiðslan verða hröð þannig þegar við hittumst að ári þá myndi ég vonast til að þetta verði komið í notkun.“

Tómas sagði Seðlabankann horfa til Norðurlandanna en þar séu kerfin aðeins ólík eftir löndum.

„Í Svíþjóð er þetta vinsælasta greiðsluleiðin. Það standa vonir til annars staðar á Norðurlöndunum að sú leið, sem kannski margir þekkja sem hafa ferðast til Svíþjóðar þar sem mjög margir greiða með millifærslum í gegnum síma. Önnur Norðurlönd vonast til að fá þá lausn til sín.“

Ásgeir og Tómas svara spurningum um stefnu Seðlabankans varðandi greiðslumiðlun frá 32:43-38:20.