Í fjáraukalögunum sem Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands, lagði fram nýlega voru boðaðar skattalækkanir ásamt auknum ríkisútgjöldum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnrýndi áformin harðlega og hefur ríkisstjórnin nú verið gerð afturreka með þau að einhverju leyti.
Í kjölfar kynningar Kwartengs á fjáraukalögunum féll breska pundið niður í áður óþekktar lægðir og hafði aldrei áður verið veikara gagnvart Bandaríkjadal. Á meðal þess sem Kwarteng boðaði voru 60 milljarða punda niðurgreiðslur til heimila og fyrirtækja vegna hækkandi orkuverðs og 45 milljarða punda skattalækkanir. Í skattalækkununum fólst meðal annars lækkun ákveðinna tekjuskatta og dregnar voru til baka áformaðar hækkanir fyrirtækjaskatta. Einnig boðaði hann afnám þaks á kaupaukagreiðslur bankastarfsmanna.
Í ljósi þess að ríkisstjórnin starfar ekki í tómarúmi hefur Englandsbanki þurft að beita sér töluvert síðustu daga. Bankinn hóf uppkaup á ríkisskuldabréfum sem samræmist illa áformum bankans um hækkun stýrivaxta.
Kerfið hafi virkað
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, nefnir að Truss hafi til að mynda gefið það út í aðdraganda kjörs síns sem leiðtogi Íhaldsflokksins að hún hygðist lækka skatta. Hún hafi hins vegar aldrei sagst ætla að lækka jaðarskatta, sem er það sem Kwarteng kynnti.
![Jón Daníelsson hagfræðing](http://vb.overcastcdn.com/images/118411.width-500.jpg)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
„Það er ekki nóg að þekkja allar nóturnar í Tunglskinssónötunni. Þetta verður ekki lag nema slegið sé á nóturnar í réttri röð. Það má vel vera að þessi áform Truss séu ekki röng, en það hvernig hún hrindir þeim í framkvæmd er rangt. Sem sýnir sig best í þeim litla stuðningi sem hún fær.“
Hann nefnir að í kjölfarið hafi pundið tekið dýfu og ávöxtunarkrafa breskra ríkisskuldabréfa hækkað úr 3,2% í 4,5%, vextir húsnæðislána hækkað og lífeyrissjóðir þurf að mæta veðköllum. „Það sem gerðist í breska lífeyriskerfinu síðastliðinn miðvikudag á rætur að rekja til skarprar hækkunar á ávöxtunarkröfu bresku ríkisskuldabréfanna sem var viðbragð markaðarins við áformum ríkisstjórnarinnar. Lífeyrissjóðirnir þurftu að bregðast við með því að selja skuldabréf til að geta mætt veðköllunum.“
Jón segir að Englandsbanki hafi brugðist rétt við með því að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 55 milljarða punda, sem er um það bil 2,5% af þjóðarframleiðslu Bretlands. Ella hefði verðið fallið mikið meira. „Þarna virkaði kerf- ið eins og það á að gera.“ Þá segir Jón að lífeyrissjóðirnir hafi ekki getað vitað í hvað stefndi og því ekki getað brugðist við í tæka tíð.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.