Tuttugu umsagnir hafa verið lagðar fram við frumvarpsdrög Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um að heimila rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu. Umsagnarfresti lýkur í dag.
Félag atvinnurekenda (FA) er einn af tveimur umsagnaraðilum sem fagna áformunum. Félagið telur raunar að frumvarpið, samkvæmt drögunum, gangi of stutt í frjálsræðisátt.
FA segir að frumvarpsdrögin þessi hafa þegar fengið gagnrýni á þeim forsendum að aðgengi að áfengi muni aukast, með neikvæðum áhrifum á lýðheilsu.
„FA leyfir sér að benda á að ekkert beint samband er á milli aðgengis að áfengi og misnotkunar þess; þannig stórjókst aðgengi að áfengi með fjölgun sölustaða ÁTVR og mikilli fjölgun vínveitingastaða, á sama tíma og unglingadrykkja á Íslandi minnkaði verulega.“
Til að ná markmiðum um lýðheilsu eru fræðsla, forvarnir og upplýsingar líklegri til árangurs en boð og bönn að mati Félags atvinnurekenda.
Telja innlendar ververslanir heimilar út frá jafnræðissjónarmiðum
Í umsögninni sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, skrifar undir er fagnað því að stefnt sé að því að jafna stöðu innlendra áfengisvefverslana við sambærilegar verslanir erlendis sem íslenskum neytendum sé nú þegar heimilt að versla við. Félagið hafi árum saman kallað eftir lagalegum skýrleika í þessum efnum.
FA segir að réttilega sé bent á í greinargerð frumvarpsdraganna að engar hömlur hafi verið á að einstaklingar flytji inn áfengi sem þeir kaupa af erlendum vefverslunum enda myndi slíkt brjóta í bága við EES-samninginn. Af þeim sökum hefur FA talið ljóst að innlend vefverslun með áfengi væri jafnframt heimil, út frá sjónarmiðum um jafnræði, þótt hún hafi ekki verið heimiluð sérstaklega í áfengislögum.
Jafnframt vitnar FA í greinargerðina þar sem segir að „vart verða fundin dæmi í íslenskri löggjöf þar sem íslenskum neytendum er óheimilt að kaupa vöru af innlendri verslun sem heimilt er að versla af erlendri verslun og fá senda heim að dyrum.“
„FA tekur heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerðinni, að málefnaleg rök skorti fyrir þeirri takmörkun á atvinnufrelsi að innlendir aðilar megi ekki keppa við erlenda að þessu leyti. Félagið er sömuleiðis sammála því að verði ekkert aðhafzt í málinu, muni áfram ríkja óvissa um lögmæti innlendra vefverzlana með áfengi, sem sé hvorki ásættanleg staða fyrir hið opinbera né fyrir hinn almenna borgara.“
Þjóni engum tilgangi að loka augunum
Félag atvinnurekenda telur hins vegar að frumvarpið gangi í núverandi mynd of stutt í frjálsræðisátt.
„Það er að mörgu leyti skiljanlegt að stjórnvöld vilji gera breytingar á þessum markaði í smærri skrefum, en það þjónar hins vegar engum tilgangi að loka augunum fyrir því að smáskammtalækningar geta orðið til þess að búa til nýtt ójafnræði og samkeppnishömlur á markaðnum.“
FA vísar í þeim efnum til bréfs dómsmála ráðuneytisins til félagsins 8. október 2021, þar sem fram kom að áfengislögin hefðu ekki þróast í takt við samfélagsþróun, m.a. tilkomu netviðskipta og stóraukna innlenda áfengisframleiðslu, og að á undanförnum árum hefðu komið upp „ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi.“
FA tekur því undir að brýnt sé að heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni fari fram. Það liggi fyrir að stjórnvöld hafi látið óátaldar ýmsar leiðir framhjá einkarétti ÁTVR á smásölu áfengis, sem áfengislögin kveða á um í orði, aðrar en netverslun.
„Nýlega var smærri brugghúsum heimilað að selja áfengi á framleiðslustað, en slík sala hafði lengi farið fram án lagaheimildar. Jafnframt er hægt að kaupa áfengi í vegasjoppum og hafa með sér, áfengi er til sölu fyrir viðskiptavini hefðbundinnar smásöluverzlunar í Leifsstöð og margir neytendur kaupa áfengi í gegnum áskriftar- og smakkklúbba, sem eru reknir alveg óháð ÁTVR.
Allt eru þetta eðlilegir verzlunarhættir, en um þá gilda engar reglur vegna þess að lögin gera ekki ráð fyrir þeim.“
Höfundar hljóti að tala gegn betri vitund um ÁTVR
FA furðar sig á að í greinargerð draganna kemur fram að frumvarpinu sé ekki ætlað að hrófla við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).
„Þarna hljóta höfundar draganna að tala gegn betri vitund. Með því að lagalegri óvissu um starfsemi innlendra netverzlana sé eytt, má ætla að t.d. allar hefðbundnar stórmarkaðakeðjur á Íslandi komi sér upp netverzlunum. Það verður til mikils þægindaauka fyrir neytendur, sem munu geta pantað á netinu og kippt áfengum drykkjum með sér í næstu ferð í matvörubúðina, í stað þess að gera sér sérferð í ÁTVR.
Það er því vandséð að ÁTVR eigi sér rekstrargrundvöll að gerðri þessari lagabreytingu og langeðlilegast er að stjórnvöld horfist í augu við það og heimili í framhaldinu einkaaðilum að annast hefðbundna smásölu áfengis, ekki síður en netverzlun, að settum eðlilegum skilyrðum.“
Í drögunum og greinargerð þeirra sé því enginn gaumur gefinn að ÁTVR sé nú þegar í samkeppni við einkareknar netverslanir „enda hefur stofnunin rekið eigin netverzlun um árabil“. Engin tilraun sé gerð til að setja reglur um hvernig ÁTVR hagi samkeppni við einkaaðila.
Þá segir félagið að það veki upp spurningar að í drögunum sé kveðið á um að óheimilt verði að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð sinni eða á afhendingarstað.
„Mun það sama gilda um vefverzlun ÁTVR, en afhendingarstaðir hennar eru m.a. verzlanir stofnunarinnar? Eða mun ríkisverzlunin þegar í stað njóta forréttinda umfram einkarekna keppinauta sína?“
Halli einnig á íslenska aðila í auglýsingum
Í umsögninni er einnig fjallað um bann á áfengisauglýsingar. FA segir að það liggi fyrir að áfengisauglýsingar séu víða í fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumhverfinu á Íslandi. Á samfélagmiðlum séu þær út um allt og íslensk stjórnvöld hafi enga lögsögu þar yfir.
„Afleiðing auglýsingabannsins, sem er í gildi samkvæmt bókstaf áfengislaganna, er fyrst og fremst sú að það hallar á íslenzka áfengisframleiðendur í samkeppni þeirra við erlenda keppinauta. Jafnframt er það svo að þótt áfengisauglýsingar séu víða í okkar daglega umhverfi gilda engar reglur um þær, af því að lögin gera ráð fyrir að þær séu ekki til.“
FA telur að augljós afleiðing af samþykkt frumvarps sem byggist á drögunum sé sú að sala stórmarkaðakeðjanna á áfengum drykkjum muni fara vaxandi.
Afnám auglýsingabanns á áfengi sé „nauðsynleg aðgerð“ til að jafna stöðuna á milli stórmarkaðakeðjanna og annarra áfengisinnflytjenda og innlendra framleiðenda að mati FA.