Í skýrslu KPMG um Betri vinnuviku hjá starfsmönnum stofnana og ráðuneyta í dagvinnu er gagnrýnt að þrátt fyrir skýrar forsendur og markmið í upphafi hafi þau ekki skilað sér í framkvæmd. Við framkvæmd styttingar hafi eftirfylgni með markmiðunum um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu setið eftir.

Verkefnið Betri vinnutími skiptist í tvennt. Annars vegar dagvinnu og hins vegar vaktavinnu. Styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki hins opinbera sem starfar í vaktavinnu var hrint í framkvæmd í maí árið 2021. Bára Hildur Jóhannsdóttir, sem sér um verkefnastjórn vaktavinnuhluta Betri vinnutíma, segir heilt yfir hafa gengið mjög vel að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá opinberum starfsmönnum í vaktavinnu. „Þetta er stórt verkefni sem nær til níu þúsund starfsmanna á yfir sjöhundruð vinnustöðum um allt land.“

Hún segir það ekki einungis sína persónulega skoðun að innleiðing verkefnisins hafi heilt yfir gengið vel. „Í byrjun nóvember héldum við vinnufund með um 250 aðilum sem koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Þar var gott að finna hvað fólk var jákvætt yfir því hvernig tókst til við að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Eins og með öll önnur verkefni gekk innleiðingin ekki óaðfinnanlega og nokkrir hlutir sem þurfti og þarf að laga, enda reiknuðum við alltaf með því að einhverjir hnökrar gætu komið upp.“

Aðspurð segir Bára helstu áskoranirnar sem hafi komið upp við innleiðingu betri vinnutíma hjá vaktavinnufólki verið ólíkar eftir hópum. „Það hefur meðal annars reynst erfiðara að innleiða verkefnið á þeim vinnustöðum þar sem vinnufyrirkomulag hafði verið óbreytt um langa hríð og ekki verið lagt mat á mönnunarforsendur til lengri tíma. Víðast hvar hefur innleiðingin þó gengið mjög vel.“

Bára Hildur Jóhannsdóttir.
Bára Hildur Jóhannsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Öflugt samstarf lykilatriði

Eins og fyrr segir sneri gagnrýni í skýrslu KPMG meðal annars að því að þrátt fyrir skýrar forsendur og markmið í upphafi þá hafi þau ekki skilað sér í framkvæmd hjá ráðuneytum og stofnunum. Allir hafi stytt vinnutíma dagvinnufólks en eftirfylgni með markmiðunum um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu hafi setið eftir. Að sögn Báru var innleiðing Betri vinnutíma hjá vaktavinnufólki ekki sömu vandkvæðum bundin.

„Frá upphafi lá skýrt fyrir hverjir bæru ábyrgð á verkefninu. Hver og einn stofnaðila samstarfsvettvangsins skipaði fulltrúa í stýrihóp sem bar hitann og þungann af verkefninu. Að sama skapi var settur saman matshópur sem sá um að meta gang verkefnisins, sem og innleiðingarhópar. Þetta var mikið samvinnuverkefni sem er með því stærra sem sett hefur verið á fót á opinberum vinnumarkaði í rúmlega hálfa öld.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.