Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra telur ekki þörf á að auka aðhald í ríkisfjármálum þrátt fyrir að áætlaður halli ríkissjóðs á næsta ári hefur aukist um 17,6 milljarða króna frá því að fjárlagafrumvarp 2025 var lagt fram í september síðastliðnum.
„Aðhaldið bæði á yfirstandandi ári og í fjárlögum næsta árs er algjörlega viðunandi,“ sagði Sigurður Ingi í hlaðvarpsþætti Kaffikróksins sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda stýrir.
Sigurður Ingi sagði að aðhald ríkisfjármála í ár og á næsta ári verði allt að 2,5% af landsframleiðslu.
„Við erum eiginlega búin að fá viðurkenningu á því að það sé mjög passlegt til þess að ná verðbólgunni í takt, bæði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabankanum og í raun og veru frá lánshæfismatsfyrirtækjunum sem, eftir að við lögðum fram fjármálaáætlun og fjárlög, hafa hækkað lánshæfismat ríkisins. Þannig að stefnan er rétt og það hefur ekkert breyst.“
Í kynningu fjármálaráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd, sem birt var á vef Alþingis í byrjun vikunnar, kemur fram að nú sé áætlað að ríkissjóður verði rekinn með 58,6 milljarða króna halla á næsta ári. Til samanburðar var hallinn áætlaður 41 milljarður við framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Breytinguna má einkum rekja til endurmats á heildartekjum ríkissjóðs sem lækkuðu um 20,7 milljarða frá því mati sem lá til grundvallar fjárlagafrumvarpsins.
„Er þörf á að bregðast þá við og breyta stefnunni og auka aðhaldið og risikera það að hin mjúka lending verði harðari? Mat okkar er nei,“ sagði Sigurður Ingi.
„Þetta eru sem sagt útreiknaðar stærðir sem gera það að verkum að afkoman virðist verða eitthvað um 20 milljörðum lakari tæplega á næsta ári heldur en ella. En það er ekki þörf á að bregðast við og auka aðhaldið af því að á næsta ári er verið að spá 2,4% hagvexti. Um leið og við förum aftur af stað þá munu tekjurnar vaxa og skuldahlutföllin lækka.“
Sigurður Ingi sagði það vera möguleiki fyrir næstu ríkisstjórn að bregðast hraðar við til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum.
„En það þarf að vera mat, af því að það mun síðan koma út í meira atvinnuleysi ef við göngum of langt. Þannig að þetta er jafnvægisgangur.“
Frumvarpið um kílómetragjald endurskoðað – flutningskostnaður hækki ekki á næsta ári
Ólafur spurði Sigurð Inga út í frumvarp hans um breytingu á skattlagningu ökutækja, m.a. upptöku kílómetragjalds fyrir öll ökutæki, niðurfellingu olíugjalds og hækkun kolefnisgjalds.
Ólafur benti á að félagsmenn FA hefðu reiknað út umtalsverðar hækkanir á rekstrarkostnaði vörudreifingarbifreiða, sem væru líklegar til að velta beint út í verðlagið og vinna gegn markmiðum um lækkun verðbólgu. Þá drægi frumvarpið eins og það var lagt fram mjög úr hvata til orkuskipta í vöruflutningum.
„Við erum tilbúin að hlusta á þessi sjónarmið,“ sagði Sigurður Ingi og boðar breytingar á frumvarpinu þar sem „góðar tillögur“ sem komi til móts við gagnrýni atvinnulífsins á frumvarpið.
„Með því að lengja í innleiðingunni getum við á næsta ári sagt að breytingin ein og séð muni ekki verða til þess að hækka flutningskostnað. Hins vegar, ef við færum ekki þessa leið, þá yrðum við að hækka bensín- og dísilgjöld og þá yrði kostnaðarauki sem yrði kannski meiri en það sem þínir umbjóðendur hafa verið að kvarta yfir.“
Komi til greina að endurskoða samkeppnisundanþáguna
Sigurður Ingi segir að það komi vel til greina að endurskoða undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum hvað varðar hvíta kjötið, þ.e. kjúklinga- og svínakjöt.
Ólafur Stephensen benti Sigurði á að samkvæmt undanþágunni, sem samþykkt var sem breyting á búvörulögum síðastliðið vor, kæmi ekkert í veg fyrir að t.d. Stjörnugrís og Ali sameinuðust án eftirlits samkeppnisyfirvalda, en saman eru þessi fyrirtæki með mikinn meirihluta svínakjötsframleiðslu og svínakjötsinnflutnings í landinu.
„Þetta eru ekki bændur á landsbyggðinni að berjast fyrir lífi sínu þetta eru bara tvær ríkar fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Ólafur og spurði hvort ráðherranum fyndist þetta í lagi.
Sigurður Ingi sagðist almennt styðja undanþágu landbúnaðar frá samkeppnislögum. „Hvort í þessari aðgerð hafi verið gengið of langt varðandi hvíta kjötið finnst mér bara sjálfsagt að skoða,“ sagði Sigurður Ingi. „Ef það er þannig að þurfi að leiðrétta lögin eða laga með tilliti til þessa finnst mér það algjörlega opið til skoðunar, vegna þess að fyrst og fremst var þessi aðgerð hugsuð – og þessi undanþága á Norðurlöndunum – til þess að fjölskyldubú, þá á Íslandi sauðfjárbú og nautakjötsframleiðsla fyrst og fremst, væru varin.“
Þú ert að segja að þið hafið mögulega hlaupið á ykkur með hvíta kjötið?
„Ég er bara að segja að ef það er þarna einhver galli á þessu, þá finnst mér persónulega sjálfsagt að skoða það.“
Góðar tillögur um fasteignaskattabremsu
Sigurður Ingi viðurkenndi að lítið hefði komið út úr endurskoðun á kerfi fasteignaskatta á fyrirtæki, sem hann boðaði síðast þegar hann mætti í Kaffikrókinn hjá FA, fyrir kosningarnar 2021.
Ólafur rakti tillögur, sem starfshópur FA, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Húseigendafélagsins og fleiri aðila lagði fram í fyrra, um að setja m.a. eins konar skattabremsu á fasteignaskatta, þannig að þeir hækkuðu og lækkuðu innan tiltekinna marka þótt skattstofninn, fasteignamatið, sveiflaðist mikið.
Sigurður Ingi sagðist hafa kynnt sér tillögurnar og fyndist þær góðar. Það væri hins vegar ekki gott að tekjur sveitarfélaga kæmu í vaxandi mæli frá innviðagjöldum, sem stuðluðu að hækkun íbúðaverðs. „Þannig að ég held að þarna sé eitthvað inni sem við eigum eftir að ræða og fasteignagjöldin og útfærsla þeirra er eitt af því,“ sagði Sigurður Ingi.
Ólafur og Sigurður Ingi ræddu ýmislegt fleira í Kaffikróknum, til dæmis hlutverk ríkisfjármálanna í stöðugleikanum, starfsmannamál ríkisins, hvort eðlilegt væri að ríkisstarfsmenn notuðu vildarpunkta frá flugfélögum í eigin þágu, útboðsmál og fleira.