Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið ætli sér að skila hagnaði „ekki seinna en á þessu ári“. Í ræðu sinni á aðalfundi flugfélagsins í dag sagði hann þetta markmið ekki aðeins raunhæft heldur nauðsynlegt, „ekki bara fyrir Icelandair, heldur líka fyrir Ísland.

Bogi sagði ávinning flugs og ferðaþjónustu ótvíræðan fyrir eyþjóðina Ísland. Ferðaþjónusta sé mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar en á árinu 2024 nam hún 32% af heildarútflutningi. Sama hlutfall hafi verið 18% hjá sjávarútvegi og 16% hjá álframleiðslu.

„Hluti flugs vegur þyngst innan ferðaþjónustunnar og þar er Icelandair leiðandi afl. Þannig hefur Icelandair skipt sköpum í bættum lífskjörum á Íslandi síðustu 15 ár. Og ef við ætlum að viðhalda sömu lífskjörum hér á landi næstu 15 árin verður Icelandair að vaxa og dafna.“

Skattspor félagsins hafi verið um 38 milljarðar króna í fyrra og jókst um 16% milli ára. Þá sé félagið einn stærsti vinnuveitandi landsins en starfsmenn þess hafi verið tæplega 4.000 að meðaltali í fyrra. Til viðbótar styðji félagið við aðrar útflutningsgreinar eins og sjávarútveg með því að flytja ferskan fisk í gegnum Icelandair Cargo.

Þá hafi skattspor ferðaþjónustunnar verið metið tæplega 200 milljarðar króna árið 2023.

„Þá eru ótalin ýmis afleidd áhrif sem og aukin lífsgæði í landinu sem verða ekki talin í krónum og aurum,“ sagði Bogi.

„Þessi lífsgæði styðja einnig við uppbyggingu annarra atvinnugreina, til dæmis fyrirtækja á sviði hugvits sem vilja laða til sín erlenda sérfræðinga. Það væri ekki hægt nema vegna þess hversu vel tengd við erum við umheiminn með öflugum flugtengingum. Ég er til dæmis ekki viss um að Alvotech væri staðsett hér á landi ef ekki væri fyrir öflugt leiðarkerfi Icelandair.“

Óttast að verið sé að kasta krónunni til að hirða aurinn

Bogi segir ferðaþjónustuna byggja á þjónustustörfum sem hafa verið að taka á sig miklar launahækkanir á undanförnum árum. Á launin leggist svo skattar og tryggingargjald þannig að tekjur ríkissjóðs hafi beint og óbeint verið að vaxa verulega vegna ferðaþjónustunnar.

Þetta hafi veruleg áhrif á samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands sem hafi átt undir högg að sækja síðustu misseri. Ísland eigi í harðri samkeppni við lönd eins og Noreg og Finnland þar sem stjórnvöld hafi fjárfest verulega í markaðssetningu áfangastaðanna öfugt við hér á Íslandi.

„Í þeim löndum er fáheyrt að ferðaþjónustufyrirtækin sjálf standi nánast eingöngu undir markaðssetningu landanna. Til að setja þetta í samhengi, þá varði Icelandair tæplega 25 milljónum dollara á síðustu tveimur árum í markaðssetningu Íslands á erlendum mörkuðum.“

Bogi segir því áhyggjuefni að ný ríkisstjórn boði aukna skattheimtu á greinina. Allar skatta- og gjaldahækkanir á ferðaþjónustuna geti haft neikvæð áhrif á flæði ferðamanna sem leiði til minni tekna ríkissjóðs. Aukin gjaldheimta geti snúist hratt upp í andhverfu sína.

„Það má ekki eiga sér stað að breytingar verði gerðar á rekstrarumhverfinu sem gera það að verkum að við köstum krónunni og hirðum aurinn.“

„Af og frá“ að gott sé að tempra vöxt ferðaþjónustunnar

Hann sagði suma telja það jafnvel gott að tempra vöxt greinarinnar með þeim rökum að fjöldi ferðamanna sé orðinn of mikill.

„Það er af og frá. Stærsti hluti ferðamanna sem kemur hingað til lands dvelur og ferðast á suðvesturhorninu. Vissulega er oft margt um manninn á vinsælustu ferðamannastöðunum og við því þarf að bregðast, til dæmis með álagsstýringu sem hefur reynst vel víða.

Ég get hins vegar vottað að það ekki er uppselt á Eskifirði, mínum gamla heimabæ. Hluti af lausninni er að ná betri dreifingu ferðamanna um landið og yfir árið og ég hef fulla trú á að okkur muni takast það. Þar munum við leggja okkar á vogarskálarnar með því að leggja áherslu á að auka flugframboð utan háannar, og stuðla þannig að betri nýtingu okkar innviða sem og innviða flugvallarins og ferðaþjónustunnar í heild.“

Markmið um 70-100 vélar viðráðanlegt

Icelandair tók í lok síðasta árs við sinni fyrstu Airbus vélinni. Önnur Airbus vél félagsins hóf áætlunarflug á laugardaginn síðasta og Icelandair á von á að fá afhentar tvær vélar til viðbótar á næstu mánuðum.

„Þessar nýju, langdrægu flugvélar munu opna nýja og spennandi markaði. Það eru einmitt tækifærin í öflugu leiðakerfi okkar með hagvæmari flota sem eru grunnurinn að framtíðarþróun Íslands sem ferðamannalands og tengimiðstöðvar í flugi.

Til lengri tíma, kynnum við til sögunnar Airbus 321XLR sem mun opna nýja markaði og tækifæri og við sjáum fyrir okkur allt að 100 vélar í flotanum á hundrað ára afmælinu okkar, árið 2037.“

Til samanburðar verður Icelandair með 42 flugvélar í rekstri í leiðakerfinu í ár, sama fjölda og í fyrra, þar af 21 Boeing 737 MAX og fjórar Airbus 321LR. Heildarfjöldi flugvéla, að meðtalinni fraktstarfsemi og leiguflugsstarfsemi félagsins, eru 55 vélar á árinu 2025.

Bogi sagðist hafa fengið spurningar um hvort þessi vaxtaráform séu raunhæf. Hann sagði að þótt markmið um 70-100 vélar árið 2037 hljómi sem draumkennd tala þá sé félagið að gera ráð fyrir mun minni árlegum vexti til framtíðar heldur en á síðustu fimmtán árum. Slíkur vöxtur eigi því að vera viðráðanlegur á öllum sviðum starfseminnar.

Hann nefndi einnig að markmiðið á næstu árum sé fyrst og fremst að vaxa utan háannar sumarsins og fjölga tengibönkum sem hafi í för með sér að verið sé að nýta Keflavíkurflugvöll betur yfir daginn og yfir árið. Auk þess leiði það til enn betri nýtingu á innviðum félagsins.

„Hagur hluthafa því miður verið frekar rýr“

Bogi fór stuttlega yfir viðspyrnu félagsins frá því að félagið lauk fjárhagslegri endurskipulagningu haustið 2020. Hann benti m.a. á að flugáætlun félagsins í fyrra hafi verið sú stærsta hingað til auk þess sem Icelandair sló met í fjölda farþega. Þá sé félagið nú komið með Airbus í flotann, flutt í nýjar höfuðstöðvar og starfsmenn verði yfir 4 þúsund í sumar.

„Þið [hluthafar] eigið stóran þátt í því að félaginu hefur á síðustu fjórum árum tekist að byggja upp verðmæt störf og skila gríðarlegum tekjum í þjóðarbúið. Á sama tíma hefur hagur hluthafa því miður verið frekar rýr. […] Áhersla okkar nú er á að snúa rekstri félagsins við og skila virði til hluthafa.“

Bogi sagði það vera eina helstu ástæðuna fyrir því að félagið hefur lagt höfuðáherslu á að hagræða í starfseminni, með aukinni skilvirkni og nýjum tekjumöguleikum.

Í lok árs 2024 hafi Icelandair þegar ráðist í hagræðingarverkefni sem muni skila yfir 20 milljónum dala á ársgrundvelli eða um þremur milljörðum króna. Icelandair áætli að umbreytingarvegferðin muni skila 70 milljónum dollara á ársgrundvelli fyrir árslok 2025, eða um 10 milljörðum króna.

„Við munum ekki stoppa þar því við stefnum að enn meiri hagræðingu á næstu árum,“ sagði Bogi og bætti við að þetta væri ekki skammtímaátak heldur lífstílsbreyting.